Daisypath Vacation tickers

26.8.11

10 mánuðir í einni ferðatösku

Jæja þá er allt tilbúið til brottfarar.. er setning sem ég vildi að ég gæti sagt.

Ég ákvað að byrja að pakka seinasta mánudag. Ég hélt að ég gæti hreinlega hent fötunum ofan í tösku og þá væri allt tilbúið. En nei, málið er bara ekki svo einfalt. Þegar að ég tók flík út úr skápnum þá skoðaði ég hana vel og hugsaði mig um hversu oft ég væri búin að nota hana hérna á Íslandi, og hvort ég myndi einhverntímann nota hana úti í Frakklandi. Síðan fattaði ég að ég vissi ekkert hvernig týskan væri í bænum mínum þarna úti og þá byrjaði ég að vera stressuð, eða á ég að segja stressaðari.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að getað komið 10 mánaða byrgðum af nauðsynlegum fötum í eina tösku sem má ekki vera þyngri en 20 kg.
Ég er búin að vera að þrífa föt (eða reyndara sagt er mamma búin að því) sem mig langar hugsanlega að taka með út. Þessi föt liggja nú öll á sófanum mínum og bíða þess að ég setji þau ofan í töskuna mína. Ég þori því hinsvegar ekki þar sem ég er svo hrædd að þau sé þyngri en leyfileg þyngd og ég vil ekki þurfa að skilja einhvað mikilvægt eftir hérna heima.

Fólk er að spyrja mig út í bæ hvenær ég fari og hvort mig hlakki ekki til. Jú auðvitað hlakkar mig til en ég er um leið: kvíðin, spennt, leið og glöð. En ég veit ekki hvaða tilfinningar ég á að sýna umheiminum.
Ég reyni auðvitað að fela það þegar ég er leið og efins, en þegar fólk er farið að segja við mig að það eigi eftir að sakna mín og vilji ekki að ég fari þá er virkilega erfitt að fara ekki að hágráta; en hingað til hefur mér tekist það bara nokkuð vel :)

Það er nú tæplega vika í að ég verði komin út. Flugið mitt er næsta föstudag (2.september) klukkan 07.40. Áætlaður lendingartími í París er 13.05. Þar verða AFS-sjálfboðaliðar sem taka á móti okkur og farið verður með okkur til allra hinna skiptinemana sem komnir eru til Frakklands víðs vegar úr heiminum. Við skiptinemarnir verðum síðan saman fram á sunnudagsmorgun en þá höldum við öll til fjölskyldna okkar. Áætlað er að ég verði komin til Dijon klukkan 12.05 á sunnudeginum og ætla "foreldrar" mínir og tvær "systur" mínar að koma að sækja mig þangað :D

Það verður í fyrsta skiptið sem ég sé þau. Sem er frekar fyndið þar sem ég á svo að búa hjá þeim í rúmlega 10 mánuði.

Á mánudeginum eftir að ég kem til þeirra (5.september) er skólasetningin. Skólinn byrjar síðan á fullu á þriðjudeginum. Ég hlæ við tilhugsunina að ég sé að fara að vera í frönskumælandi umhverfi eftir einungis 9 daga (skiptinema"búðirnar" teljast ekki með þar sem við tölum ensku saman þar).

Þetta er allt að verða svo raunverulegt. Ég tala við yngstu systurina Maroua næstum því á hverjum einasta degi núna. Hún sagði mér til dæmis frá útvarpsstöð sem hún hlustar á og hlusta ég núna á hana daglega. Ég komst einnig að því að nærsta H&M er í 40 mínútna fjarlægð frá bænum okkar og ætlum við "systurnar" að fara og versla þar bráðlega. Í borginni er einnig verslunargata, svo ég þarf eftir allt saman ekkert að hafa svo miklar áhyggjur af þessum 20 kg.

Þessa seinustu daga ætla ég að njóta til hins ytrasta. Það er lygilegt hvað það er stutt í brottför.

Elsku besta fjölskyldan mín :*

10.8.11

22 dagar í brottför

Ég hef ákveðið að blogga um skiptinemaferðina mína, til að leyfa ykkur á Íslandi aðeins að fylgjast með mér :) Í rauninni skil ég þó ekki afhverju ég er að þessu, þar sem ég hef því miður ekki þann hæfileika að raða orðum í rétta og fallega röð og segja það sem ég er að hugsa á góðu ritmáli. En ætli ég láti mig ekki hafa það :)

Miðvikudaginn fyrir verslunarmannarhelgina sagði mamma mér að það væri fjölskylda sem hefði áhuga á að vera fósturfjölskyldan mín. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa tifinningunni sem fór um mig þá, en ég fór strax í næstu tölvu og skoðaði umsóknina þeirra. Mér leist strax vel á þau. Þetta er 7 manna fjölskylda: Pabbi, mamma, 4 stelpur og 1 strákur. Elstu 4 börnin eru hinsvegar í háskóla og búa því ekki heima, og bý ég því einungis með 1 stelpu sem er 96 módel, foreldrunum og kisu (sem er reyndar útikisa og verð ég því að venjast því að hafa hana ekki alltaf við hlið mér). Ég og stelpan erum báðar með herbergi uppi. Þau búa í úthverfi í þorpi sem heitir Crissey. Þessi fjölskylda var talin óvenjuleg vegna einnar ástæðu sem er sú að þau eru múslimar (óvenjulegt því ég er kristin) og mamman kann ekki góða frönsku og talar arabísku við pabban og krakkana. 

Ástæðan fyrir því að ég samþykkti þessa fjölskylda var sú að ég fæ í rauninni að kynnast tveimur menningarheimum í einni ferð (smá væmið haha :D) en já.. :)

Það eru núna einungis 22 dagar í brottför og tilfinningarnar sem ég er að finna eru óendanlega skrítnar. Ég er verulega spennt að hitta fjölskylduna, en um leið hef ég ekki hugmynd um hvernig ég á að kveðja ykkur öll hérna á Íslandi á þessum stutta tíma.