Ég var á röltinu um bæinn þegar ég ákvað að fara í mína fyrstu klippingu hérna úti. Ég sagði við mig að næsta hárgreiðslustofa sem ég myndi labba framhjá, þar myndi ég fara inn og panta mér tíma. Sem ég gerði. Ég mætti síðan þangað á slaginu 9. á Laugardags morgni og þar var tekið á móti mér. Konan lét mig setjast í stól og setti hárið mitt í vask til að fara að þvo það. Þetta var eitt af því versta sem ég hef upplifað þegar að hún byrjaði. Rennblauta hárið mitt lá þarna í vasknum og mér leið eins og það væri 100 kg, þar sem það togaði svo í hálsinn á mér og svo ætlaði konan að vera rosa góð að gefa mér andlits nudd, en það gerði bara illt verra. Hún lét mig setjast í annan stól og greiddi mér. Síðan bað hún mig um að standa upp, og ég hélt að hún ætlaði að fara með mig eitthvað annað. En nei... Þá átti ég að standa á meðan hún klippti mig. Þannig að ég stóð þarna eins og hálfviti, beint fyrir framan stóra gluggann sem allir geta séð í gegnum, að láta klippa mig, standandi. Þegar allt var svo til búið og ég þurfti að borga þá sagði hún mér að þetta kostaði 48€!! Það eru rúmlega 8000kr., fyrir klippingu! Það var þá vegna þess að hún slétti á mér hárið (það var hún sem bað um að fá að gera það) og vegna þess að ég er með svo "sítt" hár. Auðvitað þurfti ég að labba inn á dýrustu stofuna í bænum; þegar það eru trilljón aðrar í bænum.
12. desember eyddum við AFS krakkarnir heilum degi með einhverfum krökkum. Við sungum, dönsuðum og bökuðum kökur saman. Þetta voru allt krakkar á svipuðum aldri og við, 14-19 ára. Sum þeirra virtust vera ansi venjuleg. Það voru tveir sem gátu haldið ræðu fyrir okkur, og gátu talað bara nokkuð venjulega við okkur. En síðan voru nokkrir sem gátu alls ekkert talað, og önnur sem gátu ekki hreyft sig án þess að gefa frá sér einskonar óp. Ég og Maddie vorum síðan beðnar af strák sem talar voða lítið að lesa Fríða og Dýrið fyrir hann. Hann var 19 ára og gat ekki lesið. Einn strákanna sem hefur aldrei gefið frá sér hljóð eða talað, söng svo í fyrsta skiptið á ævinni þegar við vorum þarna. Hann sagði ekki orð en þetta var samt æðislegt að sjá. Ég áttaði mig á því hvað ég hef það virkilega gott. Ég á ekki að taka neinu sem gefnum hlut.
14.desember átti ég svo afmæli. Badminton kennarinn hérna í skólanum var búin að plata mig til þess að taka þátt í mótinu (sem ég var búin að segja ykkur frá). Ég hugsaði með mér að ég hefði átt verri afmælisdaga, svo þetta myndi ekkert skipta máli. Daginn fyrir afmælið mitt áttaði ég mig samt á því að ég væri hérna til að hafa gaman, til að búa til mínar eigin minningar. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti ekkert að eiga leiðinlegan afmælisdag, svo að ég skráði mig úr mótinu. Ég endaði svo á því að eiga yndislegan afmælis dag. Á miðvikudögum eru allir búnar klukkan 12 um hádegi, þannig að þá fórum við 10 saman út að borða. Svo fór ég fljótlega með Brokke og Maddie heim til Brooke og þar bökuðum við saman afmæliskökuna mína. Það er alveg yndislegt að eiga svona góða að hérna úti. Ég, Maddie og Brooke erum alltaf að verða nánari og nánari og getum talað um allt milli himins og jarðar.
Það var síðan gaman að komast í tölvuna á eftir æfingu og sjá allar kveðjurnar á facebook. Og ennþá skemmtilegra svo að sjá að sætustu mínar sungu handa mér afmælissöngin. :*
Ég fékk svo að vera með sætustu á litlu jólunum þeirra. Fyndið að getað fylgst með því sem er að gerast á Íslandi, þegar maður er sjálfur annarsstaðar. Ég elska Skype !
16.desember hitti ég svo mína jóla-host-fjölskyldu. Ég var búin að vera svo sjúklega stressuð, var alveg að farast. Byrjaði að hugsa hvort þetta væri svo góð hugmynd eftir allt saman. Hvort ég væri virkilega óhamingjusöm hjá hinni fjölskyldunni (eftir að ég hef verið hérna aðeins í þó nokkra daga, þá sé ég það virkilega hvað ég var ekki hamingjusöm þarna). Síðan þegar ég kom, þá voru þau strax svo góð og hlý við mig. Mér var boðið allt sem til var í kvöldmatinn. Daginn eftir var það alveg eins með morgunmatinn. Og svo hádegismatinn og svo aftur kvöldmatinn. Þau vildu að mér myndi líða vel.
Seinasta sunnudag fórum við svo til Besancon. Skoðuðum þar jólamarkað og það var allt bara frekar jólalegt, vantaði bara snjóinn.
Á þessum tvem vikum er ég búin að keppa tvo leiki. Annar var með meistaraflokknum, og hann endaði ekki það vel. Töpuðum 3-0 á móti liðinu sem er efst í riðlinum. Síðan keppti ég líka seinasta laugardag með U-18 liðinu. Þetta er frekar fyndið að keppa með þeim, þar sem ég er elst (flestar stelpurnar svo 1-2 árum yngri en ég), en svo er markmaðurinn okkar '98 módel. Unnum þann leik samt 3-2, og þótt að ég hafi skorað, þá var þetta einn af verstu leikjunum sem ég hef átt. Það eru líka mikil viðbrigði að spila allt í einu 7 manna bolta aftur.
Þau báðu mig svo um að kenna sér nokkur íslensk orð og auðvitað byrjaði ég á því að kenna þeim erfitt orð: "Eyjafjallajökull". Stelpan er samt alveg að ná þessu. Hún fékk sér síðan 'app' í ipodinn sinn til að læra íslensku og var að því í allt gær kvöld.
Ég bakaði lakkrís og nóakropps toppa í gær. Jólatréð og stofan eru skreytt. Alltaf eldur í arninum, þannig að þetta er allt saman að verða ansi jólalegt. En það toppar samt ekkert íslenskan jólaleika.
Auðvitað langar mig að vera heima um jólin, en ég fæ þá bara að upplifa íslensk jóla á næsta ári. Og þau munu sko verða geðveik!
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og ég vona að þið eigið gott "frí" :)
Bisous :*
ps. er búin að fá alveg yndislega pakka. T.d. hangikjöts álegg frá ömmu Böddu (til að fá smá íslenskt jólabragð). Og svo auðvitað nammið frá Furó18. Ég er alveg sjúúk í íslenskt nammi um þessar mundir.