Daisypath Vacation tickers

11.3.12

Lítið eftir!

Ég ætla að byrja á því að gefa upp ástæðuna fyrir því að ég er ekki búin að vera blogga nýlega: þær eru reyndar tvær:
  • Þetta er bara allt orðið svo hversdagslegt, að það er ekkert voðalega mikið spennandi að gerast(sem er gaman að blogga um)
  • Ég er letingi!
Þá er ég búin að vera í Frakklandi í 41 dag eftir að ég kom aftur út. Ég veit ekki alveg hvort mér finnst þetta búið að líða hratt eða ekki. Því þegar ég horfi til baka þá er þetta enga stund að líða, en augnablikin eru hinsvegar löng. Ef til vill skilja mig einhverjir:)

Fyrrverandi host-fjölskyldan mín er komin með nýjan skiptinema, hún heitir Luciana.
Fyrsta skiptið sem ég hitti hana var í afmæli hjá stelpu (Lauru) í skólanum mínum. Þegar ég sá hana varð ég frekar pirruð inn  í mér og mig langaði bara ekkert með hana að hafa.
Eftir stutta stund áttaði ég mig samt á því hvað ég var barnaleg, afhverju var ég pirruð út í hana? ekki hafði hún gert mér eitthvað (það er svona að vera að stelpa, þetta eru alltaf fyrstu viðbrögð manns við eitthverju). Hún gat allt eins verið með sömu vandamál og ég hafði verið með, með þessari fjölskyldu.
Eftir að hafað talað við hana í nokkrar mínútur þá komst ég að því að ég hefði haft rétt fyrir mér. Hún var með nákvæmlegu sömu vandamál og ég hafði haft. 
Clara, ég og Anais í afmælinu hjá Lauru
Ég er búin að vera að tala mikið við hana eftir þetta afmæli, en svo um daginn sagði hún að host-systur sinni (fyrrverandi-host-systir mín) finndist ekki gaman að við værum að tala saman, svo nú er hún hætt að svara mér. 

Ég fór til Parísar seinustu helgi með host-mömmunni og systurinni. Þær voru samt búnar að sjá og gera alla túrista hlutina, svo ég var bara ein í því. Ég var rosalega fegin að vera ekki búin að sjá myndina Taken, þar sem ég var hvort sem er mjög paranoid.
Það var mjög leiðinleg þoka þar, svo myndirnar sem voru teknar voru ekki alveg þær flottustu. En annars elska ég þessa borg! Ég veit samt ekki alveg hvort ég gæti átt heima þarna. Fólkið þarna notar aðallega neðanjarðarlestinar til að ferðast, og maður sá alltaf alla vera á hlaupum. Það væri svolítið stressandi og þreytandi að gera það á hverjum einasta degi. 

Notre Dame
Á föstudaginn er ég að fara til Danmerkur með þeim krökkum sem eru í auka ensku í skólanum. Við munum leggja af stað 19.00 og við verðum komin á áfangastað í kringum hádegi á Laugardeginum. Sem þýðir að þetta eru 17 tímar sem við munum ferðast! 17 tímar í rútu!! og eitt sæti á mann! #mættihaldaaðþaðværikreppahjáfrökkunum ! Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera í þessu blessaða ferðalagi.
Við verðum síðan í Danmerku (Næstved) í eina viku. Þar verðum við svo hjá host-fjölskyldu. Ég mun þá eignast host-systur sem heitir Camilla. Við erum búnar að spjalla ansi mikið saman á facebook, og við erum mjög líkir persónuleikar. Hún býr með ömmu sinni í litlum sveitabæ og eiga þær tvo hunda og fuuullt af köttum. Svo þetta mun vera mjög áhugavert:)
Frá mánudegi til fimmtudags munum við "frakkarnir" síðan fara í skoðunarferðir í kringum svæðið Næstved. 
Ég er að reyna að æfa mig smá í dönsku, en ég man bara ekki neitt:/ Ég rugla alltaf öllum tungumálunum saman í hausnum á mér!
Ef þið kæru lesendur hafið samt eitthverjar hugmyndir um það sem ég gæti gert í þessari rútuferð, þá væri alveg geðveikt að fá einhver ráð! Það væri auðvitað bara best ef ég gæti bara sofið alla ferðina.

Fyrir þá sem vita það ekki nú þegar, þá er ég að koma heim 2.apríl. Tilfinningarnar eru mjööög blendnar. Ég er auðvitað alveg rosalega ánægð að vera að koma heim, en samt sem áður er ég svo kvíðin og stressuð og smá leið. Ég er leið út af því að þetta hefur ekki gengið upp eins og ég var að vonast til. 
AFS konan á svæðinu mínu, var alltaf að segja við mig að ég væri bara ekki nægilega sterk manneskja andlega séð og að ég hafi bara alls ekki verið tilbúin fyrir þessa reyslu. Kannski er það alveg rétt hjá henni. Kannski var ég ekki alveg andlega tilbúin fyrir það að vera í burtu frá öllum í svona langan tíma. En ég er samt sem áður búin að styrkjast mjög mikið í gegnum þessa reynslu (væmið). 
Þó svo að þetta hafi ekki allt gengið upp eins vel og ég var að vonast, þá myndi ég samt ekki breyta neinu ef ég gæti. Allt sem hefur gengið á hefur gert mig að manneskjunni sem ég er í dag. Ég er búin að bæta mig verulega í frönsku(er samt alls ekki altalandi eða skiljandi, en það er annað mál). Ég kynntist alveg yndislegum stelpum hérna úti, sem eru mér mjöög kærar. Ég er líka farin að meta alls svo mikið meira heima. Ég sé virkilega hvað ég hef það gott heima! Og þess vegna er ég svo spennt að koma heim eftir 22 daga ! 

Bisous :*

1.2.12

Hvíldu í friði elsku besti Steini minn †


Sigursteinn D. Gíslason var eiginmaður frænku minnar, þar af leiðandi var hann frændi minn. Hann var yndislegur maður og ég mun gleyma honum seint, nei hvað er ég að segja.. ég mun aldrei gleyma honum! 
Ég er svo ánægð og þakklát að hafað kynnst manni eins og honum Steina. Hann gerði allt mikið skemmtilegra. Hann fékk mann oftast til að brosa þegar maður var í fýlu eða leiður. Ef hann náði því ekki, þá náði hann að láta mann hlægja! Hann kenndi mér svo margt þessi yndislegi maður. Hann kenndi mér meðal annars að það væri ókeypis að brosa. Réttara sagt sýndi hann mér það; þessi maður var alltaf brosandi, alltaf hlægjandi, alltaf í góðu skapi; og varð aldrei krónu fátækari.
Hann er líka búin að sýna mér að maður á aldrei að taka neinu sem gefnum hlut.
Aldrei hefði mér dottið í hug að fyrsta jarðarförin sem ég myndi fara í, væri hjá honum Steina mínum. Hvernig væri hægt að taka svona æðislega manneskju bara í burtu frá okkur öllum? Manneskju sem gerði allt svo mikið betra! Ég er að reyna að telja sjálfri mér trú um það, að æðri heimur þyrfti á honum að halda. Annars skil ég ekki hvernig Guð getur verið svona óréttlátur.
Ég er verulega leið að ég hafi ekki fengið að kveðja hann í eigin persónu, en ég fékk að kveðja hann í jarðarförinni hans. Það var alveg yndislegt að fá að koma heim og kveðja hann í seinasta skiptið. Þó ég hafi ekki fengið að segja það við hann, þá veit ég, að hann vissi, að ég elskaði hann.
Jarðarförin hans Steina er eitt af því erfiðasta sem ég hef gert. Samt sem áður þegar pabbi bað mig síðan um að labba með krans á eftir kistunni, hikaði ég ekki við að segja já. Það var erfitt að labba niður kirkjugólfið með kistuna fyrir framan mig. Ég starði allan tímann á lítinn hvítan límmiða á kistunni, þar sem nafnið hans var skrifað á. Þetta gat bara ekki verið satt.. Þetta hlaut að vera einhver misskilningu. Á meðan ég gekk, hugsaði til Steina og ég hugsaði um allt sem mig langaði að segja honum. Ég sagði honum meðal annars, í hugsununum mínum, hversu vænt mér þótti um hann. Í þessari kveðjustund okkar Steina, náði ég loka á tárin. En þau tár sem fengu þó að falla voru gleðitár. Því eins og Steini sagði:

“Ef þið ætlið að gráta yfir mér,
viljiði þá hafa það gleðitár
vegna góðra minninga”


Hvíldu í friði elsku besti Steini minn. Þín verður sárt saknað. Þú munt lifa að eilífðu í hjarta okkar. Ég hlakka til að hitta þig aftur í nýjum heimi. Heimi fullum af hamingju og ást!


Þeir sem vilja minnast hans er bent á
"Styrktarsjóð fyrir börn Sigursteins Gíslasonar"
Reikningur: 0552-14-408888, kt: 590112-0110

10.1.12

2o12


Bonjour!
Þau ykkar, sem lásu seinasta bloggið mitt vita eflaust að ég fór til annarar fjölskyldu, til að vera hjá yfir jólahátíðarnar. Það heppnaðist allt bara mjög vel hjá þeim. Svo vel að þau buðu mér að vera hjá sér það sem eftir væri! Ég var og er alveg himinlifandi! 


Mér líður vel hjá þeim og þau tala frönsku á heimilinu sem er gott. Auðvitað er enginn fullkominn en þetta er að ganga vel hjá okkur. Er reyndar ennþá að reyna að pína mig í það að hlusta þau bíta í gaffalinn þegar þau borða; það er eitt af því sem ég hata! En annars eru þau indæl. Spyrja reyndar stundum skrítna spurninga eins og hvort það sé blokkir á íslandi, afhverju íslendingar séu ekki góðir að skauta. En þetta er fær mig bara til að hlægja. 


Jólin voru hálf skrítin. Reyndi bara að hugsa að þetta væri matarboð. Það virkaði svo sem alveg. Þó að maturinn hafi verið í fínni kantinum þá var þetta ekki jólamatur eins og ég borða venjulega. Pakkarnir voru líka ekki margir, foreldrarnir fengu bæði tvo pakka og annar þeirra var frá mér! Skrítið að sjá þetta þegar að það er alltaf gefið trilljón pakka heima. 
Á Aðfangadag talaði ég svo þrisvar sinnum við fjölskylduna mína. Fyrra skiptið var um tvö leytið og ég fékk þá að opna einn af pökkunum þeirra. Á kortinu stóð svo að þau myndu segja mér eina aðra gjöf á skype. Þau ætluðu samt ekki að segja mér það fyrr en klukkan sex á íslenskum tíma vegna þess að nenntu ekki að leita að gjöfinni undir jólatrénu... 
Þegar klukkan sló svo sex var ég aftur komin á skype og ég fékk að vita hver gjöfin væri... Hún var sú að þau myndu koma að heimsækja mig eftir nákvæmlega 100 daga ! Ég var svo ánægð ! Og er það enn! Án efa besta jólagjöf í langan tíma ! 


jólamyndin af fjölskyldunni í ár


Ég fékk síðan fuullt af nammi frá sætustu mínum og jú stafrænanmyndaramma stút fullann af yndislegum minningum.


Talandi um góðar jólagjafir: þá fékk ég alveg æðislega bók sem heitir "Hungurleikarnir". Ég gat ekki sleppt henni. Og svo loksins þegar ég kláraði hana var klukkan þrjú um nótt og adrenalínið í algjöru hámarki. Fór þá að tala við Dagbjörtu á facebook til að reyna að róa mig, en það hafði bara akkúrat öfug áhrif. Ég pantaði mér strax næstu tvær bækur á ensku á amazon, en það voru tíu dagar í þær. Gat ekki beðið!


Áramótin voru líka mjög fín. Mér var boðið til vinkonu minnar Brooke um hálf sjö og þá fór host-fjölskyldan mín til ættingja í Dijon. Okkur var boðið á lítið ball og fórum við þangað, án þess reyndar að borða. Áramótamatur er ekki mikil vægur hjá host-fjölskyldu Brooke. Svo að við hámuðum bara í okkur snakki sem var í boði í veislunni. Þetta var bara ansi skemmtilegt og alveg yndislegt að fá að vera með Brooke! Þegar við komum heim til hennar, þá gátum við ekkert sofið þar sem yngri host-systir hennar var með partý og þau hættu ekki að tala alla nóttina!


ég og Brooke, gamlárskvöld
2.Janúar þurfti ég svo að fara til gömlu host-fjölskyldu minnar í þrjár nætur. Ég var smá smeik en svo var þetta reyndar bara allt í lagi. Sem betur fer. Samband mitt og yngstu systurinnar er orðið betra eftir að ég skipti. Hún er farin að tala aftur við mig, sem er jú jákvætt. 
Ég komst reyndar að því að þau eru að fara að taka annan skiptinema að sér í lok janúar. Fannst það smá *slap in the face*. Strax búin að skipta mér út. En er það ekki það sem ég gerði þeim líka?


Ég snéri svo til minnar nýju host-fjölskyldu seinasta fimmtudagskvöld. Þau eiga heima uppí sveit og það eru níu kílómetrar frá bænum þar sem skólinn minn er. Hann skólinn minn er svo alveg í hinum enda bæjarins. = ég þarf að vakna sex alla daga (nema miðvikudaga). Kem svo heim kl. sjö, (nema miðvikudögum og föstudögum, þegar ég kem heim klukkan níu). Þetta er erfitt, en ætli ég venjist því ekki bara :)


6.janúar fékk ég svo langþráðu hunger games bækurnar mínar. Kláraði bók númer tvö á einum degi. Þriðju og seinustu bókina var ég svo að klára í dag. Þetta er nýja æðið mitt ! Elska þetta! Fyrsta myndin kemur síðan út eftir rúmlega sjötíu daga ! Vinkonurnar mínar í skólanum eru líka með æði fyrir þessum bókum, og ég er búin að smita Maddie af þessu æði líka. Ég er kannski að fara í aðeins og miklar öfgar í þessu öllu saman en adrenalínið sem maður fær við að lesa þessar bækur er geðveikt. Lagið er síðan líka mjög gott og auðvitað er ég alltaf að hlusta á það, þar sem það minnir mig á atburðina í bókunum. lagið og myndin :)


Á sunnudaginn fórum við svo til Strasbourg að keppa leik. Lögðum af stað kl. áttu um morguninn og komum heim rúmlega níu að kvöldi til. Gaman að segja frá því að við unnum leikinn 7-0 og erum því komnar áfram í Cup de France :)


ég og elsku besta Maddie mín
Í gær sendi Maddie mér fremur leiðinleg skilaboð. Hún væri að fara að heim næsta laugardag. Hún átti alltaf að fara fyrr heim en hinir krakkarnir í hálfs mánaðarprógraminu en samt bara sex dögum. Núna eru níu dagar búin að bætast við það. Þetta verður erfitt, og svo ennþá erfiðara þegar Brooke fer svo líka heim eftir nítján daga. En ég er svo ánægð að hafað kynnst þeim!


Núna er ég bara að reyna að njóta þess að vera hérna. Njóta þess að vera til. Ég hugsa hlýtt til ykkar, ekki veitir ykkur af smá hlýju miðað við það hvernig veðurspánar segja að veðrið sé hjá ykkur. 


Gros Bisous:*


ps. bara svo ég gleymi því ekki: Gleðilegt nýtt ár! Hlakka til að sjá ykkur þegar þetta ár verður hálfnað. 
"Hvort að ár verði nýtt, er ekki undir dagatalinu komið, og ekki undir klukkunni.
Hvort að ár verði nýtt, er undir okkur komið.
Hvort við gerum það nýtt, hvort við byrjum að hugsa upp á nýtt, hvort við byrjum að tala upp á nýtt og hvort við byrjum að lifa upp á nýtt."


Áramótaheitið mitt í ár, er að vera besta útgáfan af sjálfri mér.

21.12.11

3 dagar í jólin

Þá eru rúmlega 2 vikur síðan ég bloggaði seinast. Þannig að ég hef alveg frá þó nokkrum hlutum að segja.


Ég var á röltinu um bæinn þegar ég ákvað að fara í mína fyrstu klippingu hérna úti. Ég sagði við mig að næsta hárgreiðslustofa sem ég myndi labba framhjá, þar myndi ég fara inn og panta mér tíma. Sem ég gerði. Ég mætti síðan þangað á slaginu 9. á Laugardags morgni og þar var tekið á móti mér. Konan lét mig setjast í stól og setti hárið mitt í vask til að fara að þvo það. Þetta var eitt af því versta sem ég hef upplifað þegar að hún byrjaði. Rennblauta hárið mitt lá þarna í vasknum og mér leið eins og það væri 100 kg, þar sem það togaði svo í hálsinn á mér og svo ætlaði konan að vera rosa góð að gefa mér andlits nudd, en það gerði bara illt verra. Hún lét mig setjast í annan stól og greiddi mér. Síðan bað hún mig um að standa upp, og ég hélt að hún ætlaði að fara með mig eitthvað annað. En nei... Þá átti ég að standa á meðan hún klippti mig. Þannig að ég stóð þarna eins og hálfviti, beint fyrir framan stóra gluggann sem allir geta séð í gegnum, að láta klippa mig, standandi. Þegar allt var svo til búið og ég þurfti að borga þá sagði hún mér að þetta kostaði 48€!! Það eru rúmlega 8000kr., fyrir klippingu! Það var þá vegna þess að hún slétti á mér hárið (það var hún sem bað um að fá að gera það) og vegna þess að ég er með svo "sítt" hár. Auðvitað þurfti ég að labba inn á dýrustu stofuna í bænum; þegar það eru trilljón aðrar í bænum.


12. desember eyddum við AFS krakkarnir heilum degi með einhverfum krökkum. Við sungum, dönsuðum og bökuðum kökur saman. Þetta voru allt krakkar á svipuðum aldri og við, 14-19 ára. Sum þeirra virtust vera ansi venjuleg. Það voru tveir sem gátu haldið ræðu fyrir okkur, og gátu talað bara nokkuð venjulega við okkur. En síðan voru nokkrir sem gátu alls ekkert talað, og önnur sem gátu ekki hreyft sig án þess að gefa frá sér einskonar óp. Ég og Maddie vorum síðan beðnar af strák sem talar voða lítið að lesa Fríða og Dýrið fyrir hann. Hann var 19 ára og gat ekki lesið. Einn strákanna sem hefur aldrei gefið frá sér hljóð eða talað, söng svo í fyrsta skiptið á ævinni þegar við vorum þarna. Hann sagði ekki orð en þetta var samt æðislegt að sjá. Ég áttaði mig á því hvað ég hef það virkilega gott. Ég á ekki að taka neinu sem gefnum hlut.


14.desember átti ég svo afmæli. Badminton kennarinn hérna í skólanum var búin að plata mig til þess að taka þátt í mótinu (sem ég var búin að segja ykkur frá). Ég hugsaði með mér að ég hefði átt verri afmælisdaga, svo þetta myndi ekkert skipta máli. Daginn fyrir afmælið mitt áttaði ég mig samt á því að ég væri hérna til að hafa gaman, til að búa til mínar eigin minningar. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti ekkert að eiga leiðinlegan afmælisdag, svo að ég skráði mig úr mótinu. Ég endaði svo á því að eiga yndislegan afmælis dag. Á miðvikudögum eru allir búnar klukkan 12 um hádegi, þannig að þá fórum við 10 saman út að borða. Svo fór ég fljótlega með Brokke og Maddie heim til Brooke og þar bökuðum við saman afmæliskökuna mína. Það er alveg yndislegt að eiga svona góða að hérna úti. Ég, Maddie og Brooke erum alltaf að verða nánari og nánari og getum talað um allt milli himins og jarðar.
Það var síðan gaman að komast í tölvuna á eftir æfingu og sjá allar kveðjurnar á facebook. Og ennþá skemmtilegra svo að sjá að sætustu mínar sungu handa mér afmælissöngin. :*


Ég fékk svo að vera með sætustu á litlu jólunum þeirra. Fyndið að getað fylgst með því sem er að gerast á Íslandi, þegar maður er sjálfur annarsstaðar. Ég elska Skype ! 


16.desember hitti ég svo mína jóla-host-fjölskyldu. Ég var búin að vera svo sjúklega stressuð, var alveg að farast. Byrjaði að hugsa hvort þetta væri svo góð hugmynd eftir allt saman. Hvort ég væri virkilega óhamingjusöm hjá hinni fjölskyldunni (eftir að ég hef verið hérna aðeins í þó nokkra daga, þá sé ég það virkilega hvað ég var ekki hamingjusöm þarna). Síðan þegar ég kom, þá voru þau strax svo góð og hlý við mig. Mér var boðið allt sem til var í kvöldmatinn. Daginn eftir var það alveg eins með morgunmatinn. Og svo hádegismatinn og svo aftur kvöldmatinn. Þau vildu að mér myndi líða vel.
Seinasta sunnudag fórum við svo til Besancon. Skoðuðum þar jólamarkað og það var allt bara frekar jólalegt, vantaði bara snjóinn.


Á þessum tvem vikum er ég búin að keppa tvo leiki. Annar var með meistaraflokknum, og hann endaði ekki það vel. Töpuðum 3-0 á móti liðinu sem er efst í riðlinum. Síðan keppti ég líka seinasta laugardag með U-18 liðinu. Þetta er frekar fyndið að keppa með þeim, þar sem ég er elst (flestar stelpurnar svo 1-2 árum yngri en ég), en svo er markmaðurinn okkar '98 módel. Unnum þann leik samt 3-2, og þótt að ég hafi skorað, þá var þetta einn af verstu leikjunum sem ég hef átt. Það eru líka mikil viðbrigði að spila allt í einu 7 manna bolta aftur.


Ég er alveg rosalega sátt við þessa fjölskyldu.  Mér líður mikið betur en mér leið fyrir tæplega viku. Þessi fjölskylda er yndisleg og þau eru dugleg að hjálpa mér.
Þau báðu mig svo um að kenna sér nokkur íslensk orð og auðvitað byrjaði ég á því að kenna þeim erfitt orð: "Eyjafjallajökull". Stelpan er samt alveg að ná þessu. Hún fékk sér síðan 'app' í ipodinn sinn til að læra íslensku og var að því í allt gær kvöld.



Ég bakaði lakkrís og nóakropps toppa í gær. Jólatréð og stofan eru skreytt. Alltaf eldur í arninum, þannig að þetta er allt saman að verða ansi jólalegt. En það toppar samt ekkert íslenskan jólaleika.
Auðvitað langar mig að vera heima um jólin, en ég fæ þá bara að upplifa íslensk jóla á næsta ári. Og þau munu sko verða geðveik!
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og ég vona að þið eigið gott "frí" :)
Bisous :*
ps. er búin að fá alveg yndislega pakka. T.d. hangikjöts álegg frá ömmu Böddu (til að fá smá íslenskt jólabragð). Og svo auðvitað nammið frá Furó18. Ég er alveg sjúúk í íslenskt nammi um þessar mundir.

6.12.11

Ég er þakklát fyrir þessa upplifun, þó svo að hún sé erfið!

Eins og svo oft áður er ég að velta því fyrir mér afhverju ég sé hérna. Ég vil alls ekki vera að kvarta þar sem það var ég sem ákvað að koma hingað. Það var ég sem vildi breyta til. En eins og stjörnuspáin mín sagði um daginn :
"Breyting, breytingana vegna, er einungis flótti frá raunveruleikanum".
Þannig ég fór virkilega að pæla í því (sem er ekkert svo hollt fyrir mig) en þá fatta ég í rauninni ekki af hverju ég kom hingað. En það er svo sem of seint að breyta því núna.. Ég er komin hingað og þrjóskan mín er svo þrjósk að ég held ég verði að klára þetta ár! Annars held ég að ég muni sjá eftir því alla mína ævi.
Ég er samt alveg rosalega þakklát. Ég er þakklát fyrir það að vera að læra frönsku. Fyrir það að ég sé að upplifa eitthvað glænýtt. Ég er þakklát fyrir það að verða sjálfstæðari. Ég er líka þakklát fyrir það að fatta hvað ég hef það alveg æðislegt á Íslandi! Ég er þakklát fyrir mömmu og pabba sem gerðu það kleift fyrir mér að koma hingað (og jú auðvitað ömmu og afa sem hjálpuðu líka aldeilis til). 
Seinasta miðvikudag fór ég að keppa í badminton og ég vann alla leikina mína. Gamla bara að rifja upp gamla takta:p Skólinn minn er skráður í eitt mót en mótinu er skipt niður í 3 daga. Eitthverja 3 miðvikudaga frá nóvember fram í janúar. Komst svo að því að leikirnir sem ég keppti á miðvikudaginn gildu ekki í þetta mót; og það var frekar svekkjandi. Alvöru mótið átti að byrja á morgun, en það var fært fram á næsta miðvikudag; sem er 14.des; afmælisdagurinn minn. Svo ég held ég komist ekki þar sem það myndi skemma allt sem ég er búin að plana fyrir daginn :/ Mig langar eiginlega frekar að verja tímanum mínum með stelpunum frekar en að keyra eitthvað út í rassgat og keppa nokkra leiki!
Talandi um mont þá fór ég í Physique-chemie próf um daginn. og ég fékk 4!!! Reyndar af 20, en það er annað mál.. Var alveg sérlega ánægð sérstaklega þar sem stelpan við hliðin á mér fékk 7! Allt að koma hjá mér.
Á laugardaginn var svo AFS jólahátíðin. Allir skiptinemarnir áttu að vera með smá atriði. Ég sem er alveg hæfileika laus, var því í frekar miklu basli við að finna eitthvað til að gera. Maddie kom mér svo algjörlega til bjargar, og við vorum með lítið fótbolta atriði. Vorum alveg heil lengi að reyna að ná öllu rétt. Það virtist ekkert ganga upp þegar við vorum að æfa okkur og því alveg rosalega mikið stress í gangi þegar við áttum að flytja þetta fyrir framan alla. En svo heppnaðist allt bara nokkuð vel; fyrir utan það að ég þurfti að klúðra smá.   Það má horfa á atriði mitt og Maddie hér Það var fullt af atriðum, þar á meðal, salsa, hiphop, japanskur blævænga dans, söngur, píanó leikur og galdrar. Þetta var annars bara nokkuð skemmtilegur dagur, þessi laugardagur sem við áttum í Dijon. Við tókum lestina klukkan 10.48 um morguninn hittumst svo öll og fengum okkur hádegismat. Eftir matinn þá var eiginlega rekið okkur niðrí bæ, en við vorum frekar treg til að fara. Ég var síðan nokkuð ánægð að hafa farið þar sem við fórum í H&M! Það er eitt af því sem ég elska við Frakkland að um leið og maður fer í alvöru borg þá er allt að finna þar!! 

Brooke, ég og Maddie í H&M !

Þar sem fóstur-fjölskyldan mín eru múslimar, þá eru engin jól hjá þeim. Ég var frekar ósátt við það, og AFS fattaði það alveg, svo að þau fundu fjölskyldu handa mér til að vera hjá um jólin. Ég er eiginlega bara nokkuð ánægð, en samt verður það skrítið.. að fara til fólks sem ég þekki ekki neitt og vera hjá þeim yfir hátíðirnar (en þetta er bara eins og áður ég kom hingað þá þekkti ég fóstur-fjölskylduna mína ekki neitt). En ég fæ að upplifa frönsk jól svo ég get ekki kvartað! :D

Sakna ykkar alveg rosalega mikið! :*

14.11.11

Listin að kvarta. Við kunnum hana öll.


Listin að kvarta. Við kunnum hana öll.
Við erum vön að kvarta og kveina þegar okkur líkar ekki við eitthvað. Við látum tilfinningarnar flakka án þess að hugsa okkur fyrst um.
Ég kannast við þetta sjálf; alltaf að kvarta yfir smámunum eins og það að:
-uppáhaldsnammið manns sé ekki til í búðinni.
-þurfa að fikrast áfram eins og snigill á ganginum í skólanum á leiðinni í sögutíma, vegna þess að fókið fyrir framan þig er að labba svo hægt.
-vatnið í vatnsvélinni sé ekki kalt.
-horfa út um gluggann á slæmum vetrardegi og blóta innra með sér og hugsa afhverju maður þyrfti nú að eiga heima á Íslandi.

Það sem við spáum oft ekki í þegar við erum að kvarta um svona smámuni, er það að fólk annarsstaðar er með mikið verri og alvarlegri vandamál. Þessi vandamál eru t.d. krabbamein.
Krabbamein geta bæði verið góð- og illkynja. Í báðum tilvikum er ekkert annað í stöðinni en það að vona að allt verði í lagi; að þessi hræðilega martröð taka brátt enda og allt geti orðið gott aftur.

Með þessum pistli lesandi góði, vil ég biðja þig um að hugsa þinn gang.
-Er virkilega þess virði að kvarta yfir því að uppáhalds nammið þitt var ekki til; þú hefðir hvort sem er séð eftir því að hafa að borða það.
-Afhverju skipta 5-10 sekúndur þig svona miklu máli? langar þig virkilega svona mikið að komast í sögutíma?
-Afhverju ertu að væla yfir því að vatnið sé ekki nógu kalt?; þú hefðir hvort sem er bara fengið heilakul ef það hefði verið kalt.
-Hvað er svo slæmt við það að veðrið sé svona slæmt úti? Er það ekki bara kósý að hnipra sig þá undir teppi og horfa á mynd með fjölskyldunni?

Við skulum öll hugsa jákvætt um þessar mundir (og bara alltaf). Hugsum eins og Pollýanna vinkona okkar. Hugsum til þess að það er hátíð í vændum; hátíð fjölskyldu og friðar. Við skulum einnig hugsa til þeirra sem eru verr stödd. Við skulum hugsa til þeirra sem eru að glíma við erfiða baráttu um þessar mundir og við skulum óska þeim öllum góðs bata.

Hugsum okkar gang og hættum að kvarta!

11.11.11

11.11.11

Í dag er ég búin að vera hérna í 10 vikur það gera heila 70 daga. Þetta er allt svo óraunverulegt. Þetta er að líða svo óhemju hratt; það er komin helgi áður en ég veit af. Núna eru einungis 35 vikur eftir. Ég get bæði verið glöð og leið yfir því.


Ég er búin að fá nokkra æðislega pakka frá Íslandi. Þar á meðal fékk ég tamari ristaðar möndlur (my everything <3) síðan er ég líka búin að fá nokkur bréf sem gleðja mig alltaf jafn mikið. Ég fékk líka senda bókina Pollýanna frá fjölskyldunni minni en bókin er að hjálpa mér mikið. Ég fékk ábendingu frá Árný Láru um að hún gæti hjálpað mér eins og hún hjálpaði henni. Fyrir þau ykkur sem vita ekki hver Pollýanna er, þá er þetta lítil stelpa sem er alltaf að leika einn leik (gerir auðvitað líka aðra hluti...) en þessi leikur gengur út á það að finna alltaf það jákvæða við allt. Ég er að reyna að leika þennan leik daglega. Það er að ganga misvel en hérna eru þó nokkur dæmi:
  • Ég get glaðst yfir því að skóladagurinn hérna sé langur, vegna þess að þegar ég kem aftur til Íslands þá virðast dagarnir þar vera styttri fyrir mér.
  • Ég get glaðst yfir því að sjá myndir af fjölskyldunni minni á Flórída, því þá getur mér hlakkað til að getað gert sömu hluti með þeim bráðlega.
  • Ég get glaðst yfir því að kunna ekki frönsku núna (þó svo að það sé sjúklega pirrandi), því þá þarf ég ekki að gera heimavinnuna.
  • Ég get glaðst yfir því að vera svona lengi frá fjölskyldunni minni og vinum, því þegar ég kem aftur þá verður samband okkar betra og sterkara.
... og svona gæti ég haldið "endalaust" áfram.

Síðust helgi fór ég með AFS krökkunum á mínu svæði til Besançon. Við þurftum að keyra í rúmlega einn og hálfan tíma. Við gerðum voða lítið, en þetta var samt æðislegt. Við löbbuðum um allann bæinn og vorum bara spjalla. Mér finnst ótrúlega þægilegt að tala við þau. Ég tala lang mest við Brooke og Maddie, og það er eins og við séum búnar að þekkjast í nokkur ár. Við getum sagt hver annari allt og það besta er að við skiljum hver aðra svo vel. Þetta er reyndar svona með alla skiptinemana hérna við erum öll svo náin því að við vitum hvað hinn aðilinn er að gangi í gegnum, því við erum að ganga í gegnum það sama.

Skiptinemarnir á mínu svæði
AFS eru skiptinemasamtökin sem gerðu mér kleift að koma hingað. Margir vilja þó halda því fram að AFS standi fyrir "Another fat student". Þetta er eitt af áhyggjuefnunum hjá flestum skiptinemunum. Það langar eiginlega engum að verða AFS. Við skiptinemarnir vorum að tala um þetta þegar um mánuður var liðinn af dvölinni okkar hérna. Það sögðu mér þá tvær stelpur að þær væru búnar að þyngjast um rúmlega 6 kíló. Ég fékk sjokk. 6 kílóum þyngri eftir einn mánuð. Þær sögðust bara ekki getað staðist það að fara í næsta bakarí að fá sér einhvað gómsætt (það eru líka bakarí út um allt hérna). Ég er búin að halda mér á þokkalega striki hérna, 1-2 kíló upp og niður eru nú ekkert mikið.

Franska er erfið punktur

Ég er farin að skilja aðeins meira; en ég skil ennþá ekkert þegar kennarinn er að tala upp á töflu. Ég er búin að eignast æðislega nýja vini í skólanum sem að skilja að ég er hérna til að læra frönsku; þannig að þau tala frönsku við mig og ef ég skil ekki eitthvað þá þýða þau það fyrir mig. Ég reyni að svara á frönsku og þegar ég kann ekki orðið þá treð ég enska orðinu inn í setninguna.
Ég var að tala við skiptinema um daginn sem kann lítið sem enga ensku en er ágæt í frönsku. Þannig að áður en ég vissi af var ég að tala við hana á frönsku... ooog hún skildi mig! SUCCESS! (þetta voru reyndar ekkert flókin orð en samt...)
Það sem mér finnst frekar fyndið eftir á er að ég er fór allt í einu að skilja meiri frönsku. Ekkert það að ég skilji geðveikt mikið núna, en bara allt í einu fór ég að skilja samhengið í því sem fólk var að segja við mig. Mér langar helst bara að getað talað frönsku núna! Get ekki beðið eftir að getað talað hana reiprennandi (sem ég er rétt svo að vona að ég geti!).
Nokkur atvik þar sem ég get ekki nota leikinn hennar Pollýönnu er t.d. þegar ég er í stærðfræði. En strákurinn sem situr við hliðina á  mér er of virkur og með þvílíkan athyglisbrest. Hann er alltaf að tromma með pennanum, sparka í stólinn minn, flauta og bara allt sem er sjúklega pirrandi þegar maður er að reyna að einbeita sér. Ætla samt ekki að fara að æsa mig við hann. Frekar kjánalegt. 

Einn æðislegur punktur sem ég elska við þennan dag; fyrir utan það að 11.11.11 er geðveik dagsetning; er það að í dag giftist ég ástinni minni henni Elísu:*

Ég sakna ykkar allanvega rosalega mikið <3




Vous me manquez beaucoup:*