Daisypath Vacation tickers

28.9.11

26 dagar ; mér líður bara þokkalega

Ég var á Íslandi fyrir 628 klukkustundum sem þýðir að ég er búin að vera í Frakklandi í 26 daga. Þetta er ótrúlegt.

Ég er rosalega sátt við flest allt hérna og það má segja að þetta sé ekki eins og á Íslandi. Eins og flest ykkar kannski vita þá heilsast fólk hér með 2 kossum á hvora kinnina (strákar taka hinsvegar í höndina á öðrum strákum). Ef við segjum sem svo að ég hitti í minnsta lagi 15 manneskjur á dag þá þýðir það að ég "gef" 30 kossa = 150 kossar á viku (skólaviku) = 480 kossar fyrir 17 skóladaga. Fyrir hverja fótboltaæfingu heilsa ég öllum stelpunum (þær eru um það bil 15-20) með þessari aðferð. 1 æfing = 30 kossar. 4 æfingar = 120 kossar.
Ég myndi því segja að 600 kossar fyrir 26 daga sé met hjá mér.

Talandi um met þá er ég búin að setja nokkur hérna, t.d. að ég er búin að halda draslinu í herberginu mínu í skorðum.. Í rúmlega 3 vikur !!

Líkt og ég hef nú þegar tilkynnt þá er maturinn hérna á heimilinu mjög sterkur, en ég fæ sér skammt sem er ekki eins sterkur og þeirra. Latifa sterkir matinn minn vikulega og þá fyrstu dagana er hann mjög steeeerkuuur! Ég er samt búin að finna upp á lausn til að getað borðað þennan sterka mat og hún er sú að vera alltaf með einhvern mat upp í mér og þá finn ég ekki að maturinn er sterkur fyrr en ég er alveg búin að borða;) Ég er síðan allt jafn stolt af mér þegar mér finnst maturinn ekki sterkur.
Við sátum öll úti í garði um daginn og vorum að borða brauð og ávexti. Yassine ákvað að smakka chilli (ósoðið) sem þau eru að rækta í garðinum (þau eru græn). Honum fannst það ekkert sterkt svo að Latifa sagði honum að taka gult. Hann fékk sér bita og með erfiðismunum kyngdi hann honum. Latifa tók við chillinu, tók einn bita sem var komin út úr henni 3 sekúndum seinna. Yassine sagði mér að snerta þetta bara með tungubroddinum en ég sagðist ekki vilja það. Án þess að fatta hvað ég væri að gera tróð ég litla puttanum inn í chillið (gleymi stundum að hugsa). Mér byrjaði strax að svíða undir nöglinni þannig að ég ætlaði að sleikja í burtu safan af chillinu. Það var alls ekki svo góð hugmynd. Tungan mín bókstaflega logaði eftir að hún hafði snert puttann minn í 2 sekúndur. Ég reyndi að losna við þetta með því að borða brauð (var reyndar orðin pakksödd) en það var ekki að virka. Loginn var núna kominn á varirnar mínar. Ég fór og fékk mér jógúrt og hreinlega mokaði því öllu á tunguna og varirnar. Ég leit út eins og hálfviti en þetta hjálpaði allanvega í einhverntíma.

Fólk hérna spyr mig afhverju ég sé komin til Frakklands, þá segi ég að mig langaði svo að læra nýtt tungumál. Þá spyr það afhverju ég hafi þá valið að koma til Frakklands og læra frönsku en ekki valið annað land með öðru tungumáli.
(Ég fór því að hugsa um þetta og spurði mig að því sama. Afhverju valdi ég frönsku afhverju ekki spænsku, portúgölsku eða ítölsku. Ég áttaði mig allt í einu á því að ég var verulega sokkin inn í þetta mál og ákvað að hugsa ekkert meira um það því að það myndi ekkert hafa svo góð áhrif. Ég hugsaði svo hvað það væri einfaldlega frábært að ég hafi haft kjarkinn til að gera einhvað sem er svona allt öðruvísi og það á eigin spýtur. Og ég var að læra nýtt tungumál.)
Þau spurðu mig svo líka hvað ég yrði hérna lengi. 10 mánuði sagði ég. "Og hvenær ferðu svo heim í Desember/ í vetur?" "Ömmm. Ég fer ekki heim. Ég verð hérna samfellt í 10 mánuði." Þá missa allir andlitið haha :D

Það er svo margt sem mig langar að segja ykkur, en það er ekki alveg nægilega merkilegt til að lengja þetta blogg um of, og hafa það of langt ;)
Ég sakna ykkar allra alveg óendanlega mikið og eins og undan farna daga er ég ekki að fatta þennan tíma sem ég verð frá ykkur.

vous me manques :*

18.9.11

distance is just a test to see how far love can travel


Þá er ég búin að vera hérna í rúmlega 2 vikur, eða 16 daga; sem þýðir að ég kem heim eftir 300 daga ;)
Tíminn er að líða frekar hratt hérna en samt einhvern vegin ekki. Þó svo að skólinn sé alltaf langt fram á dag þá er skólavikan frekar fljót að líða. Ég verð komin heim eftir enga stund.

“Það er virkilega gaman að segja frá því að ég er alveg búin að ná frönskunni og get talað hana núna reiprennandi.” Þetta er setning sem ég vildi að ég gæti sagt án þess að vera að ljúga að ykkur góðu lesendur, en því miður þá er raunveruleikin alls ekki svona góður.

Ég komst loksins á fótboltaæfingu í seinustu viku. Þær eru tvisvar í viku á miðvikudögum og föstudögum frá 19.00-20.30.
Það tekur mig rúmlega klukkutíma að komast á æfingu. (Á föstudögum er þetta svona:) Fæ að fara 20 mín fyrr úr skólanum til að taka strætó ‘1’ klukkan 17:38.  Er komin niðrí bæ 17:53. Þar bíð ég eftir strætó ‘6’ sem kemur 18:08. Ég fer út úr honum 18:33. Þá á ég eftir að labba 7-10 mín að fótboltahúsinu. Á miðvikudögum tekur þetta hinsvegar lengri tíma því ég þarf að koma mér frá Crissey að stoppustöðinni rétt hjá skólanum (25 min að labba þangað). Ég ætla aldrei aftur að kvarta út af vegalengdum þegar ég kem aftur heim. Þetta langa ferðalag er hinsvegar svo þess virði; þessar fótboltaæfingar eru ótrúlega skemmtilegar.

Á fyrstu æfingunni spurði þjálfarinn minn hvað ég héti og ég sagði “Valdis”. Hann skildi mig ekki og reyndi að herma eftir nafninu (öllum hinum frökkunum hefur ekki fundist nafnið mitt erfitt hingað til) en hann náði bara alls ekki að segja Valdis. Það endaði með því að hann spurði mig hvort hann mætti kalla mig Vladis vegna þess að honum fannst hitt svo erfitt. Hann kynnti mig síðan fyrir öllum hópnum með þessu nýja fína nafni: “Vladis”. Á næstu æfingu var hann greinilega búin að æfa sig að segja nafnið mitt því hann leiðrétti það fyrir framan þær allar að ég héti Valdis en ekki Vladis.



Það eina sem er leiðinlegt á þessum æfingum er það að ég get ekki talað á meðan við erum að spila. Ég reyni að segja orð eins og “oui” “hey” til að biðja um boltann. Ég get ekki sagt maður eða þess háttar og það er frekar leiðinlegt.
Miðvikudagarnar eru erfiðar æfingar, en það er rosalega gott því þá hleyp ég af mér allar auka kaloríurnar sem ég er að borða hérna.
Fékk mér t.d. 4 brauðsneiðar um daginn með Nutella. Það voru 320 kaloríur og það var bara Nutellað :$

“Ég  fer í fullt af rússibanaferðum hér tilfinningalega séð, en eins og ég var minnt á þá hef ég svo gaman af stórum rússibönum (sérstaklega þeim sem hringsnúast og fara rosalega hratt).”
Elsku bestu stelpurnar mínar :*

Ýmsir hlutir sem ég hef tekið eftir (ekkert allt voða merkilegt en):
-      Það er ekki stoppað fyrir manni á gangbrautum (ekki einu sinni löggan).
-      Fullt af köngulóm, maurum og moskítóflugum hérna.
-      Fólk að reykja á hverju einasta horni.
-      Stelpunum virðist vera alveg sama um vellíðan á fótum þeirra þar sem þær eru stundum í hælaskóm á 10 tíma skóladegi.
-      Það er brauð með öllum máltíðum.
-      Þegar það er keypt mjólk á heimilið, þá eru keyptar 24 fernur. Þær eru geymdar inn í bílskúr í engum kæli. Þessi mjólk rennur út 2 ½ mánuðum eftir að hún er pökkuð.
-      Það eru engar setur á almenningsklósettum.
-      Kennarnir hleypa aldrei fyrr úr kennslustundum (alltaf beðið eftir bjölluni), en halda manni oft lengur.
-      Í byrjun kennslustundar þarf að standa upp fyrir kennaranum og bíða eftir leyfi til að setjast. Þegar skólastjórinn kemur inn í stofuna þá standa líka allir upp.
-      Kennurunum er skít sama um þá sem skilja ekki frönsku.


Ég sakna ykkar allra sjúklega mikið og get ekki beðið eftir að knúsa ykkur fast að mér eftir 300 daga. En ég ætla að lifa í augnabliknu og reyna að læra þessa blessuðu frönsku.

À bientôt
Bises :*
     

14.9.11

11 dagar í allt öðru landi

Ég ætla að reyna að blogga eins oft og ég get, en núna er daglega rútínan mín að fara að byrja að fullu og því erfitt að finna frí tíma til að blogga.

Skólinn
Líkt og ég sagði í síðasta bloggi þá er skólinn hérna ekkert voðalega skemmtilegur og skóladagarnir eru frekar langir.
Mér fannst kennarnir gefa nemendunum alltof mikið heimanám í síðustu viku.. en það sem þeir eru að gefa þeim núna er meira en alltof mikið. Ég "þarf" samt sem áður ekki að læra heima í neinu (af því að ég bókstaflega get það ekki), nema stærðfræði, þýsku og ensku.
Stærðfræði er frekar erfið á íslensku en þegar hún er á frönsku (leiðbeiningarnar og útskýringarnar) þá má segja að hún sé sjúúklegaa erfið.

Virðingin hérna fyrir kennurunum er mun meiri en á Íslandi. Hér þarf að standa upp fyrir kennaranum (í byrjun tímans) og það má ekki setjast fyrr en hann gefur leyfi til þess. Maður verður alltaf að rétta upp hönd, þéra þá og sé frú eða herra fyrir framan ættarnafn þeirra.
Það má helst ekki tala neitt (nema í samvinnuverkefnum), það má ekki yfirgefa skólastofuna fyrr en bjallan hringur (en kennarinn heldur bekknum samt lengur ef tímaverkefninu er ekki lokið). Það má ekki fara á klósetið í tímum og bannað að fara fram að snýta sér, maður verður bara að láta vaða fyrir framan allann bekkinn (ekki sérlega þægilegt).
Vinnufriðurinn er samt sem áður ótrúlega þægilegur hérna, þegar kennarinn segir bekknum að vinna verkefni upp úr bókinni þá gera það allir (nema ég auðvitað því ég skil ekki neitt).

Frakkar
Mér og fjölskyldunni kemur vel saman; sérstaklega mér og Maroua. Við erum með sama húmorinn og getum því hlegið saman, sem mér finnst mjög fínt. Vinkonur hennar eru núna vinkonur mínar.
Ég er ekki í sama bekk og hún og er ég því líka búin að eignast vini í bekknum mínum. Þau eru líka voðalega fín.
Það er frekar fyndið hvað flestir frakkar tala litla ensku ef ekki enga, miðað við það að þeir eru allanvega í 2-3 tímum á viku í ensku.
Maroua og tvær vinkonur hennar eru nokkuð góðar í ensku og eru því fljótar að grípa til hennar þegar ég skil ekki einhvað. Ég bið þær þá að tala við mig franglais (frönsku blandaða við ensku) og það er að ganga ágætlega. Og ef ég skil ekki þá flýtur þessi setning út úr mér :"Je ne comprends pas désolé."

Trente quatre
Trente quatre eða þrjátíu og fjórir er "leikur" sem Yassine og Maroua taka alltaf þátt í. Hann er þannig að þegar klukkan er ??:34 þá á að standa upp og snúa sér í hring, það er ekki flóknara en það. Þau gera þetta alltaf við matarborðið og Maroua sagði mér að bekkurinn hennar gerir þetta stundum og þá kennarinn skilur ekkert í því. Þetta er víst voða mikið fjör. :)

Umhverfið
Undanfarna daga hefur verið rosalega heitt og mikil sól. Frökkunum finnst þessi hiti samt ekkert voðalega mikill. Ég var að labba heim frá búð sem var í 40 min fjarlægð, frá húsinu "MÍNU", með sólina í bakið og ég sólbrann.
Hér eru fullt af moskítóflugum og það kom ein inn í herbergið mitt og beit um á 4 stöðum. Á lærinu, hendinni, andlitinu og maganum. Þetta eru líka engin smá kýli sem ég fékk.

Ég úðaði skordýraeitri út um allt herbergið mitt að til reyna að drepa hana, en ég sá enga dauða flugu á gólfinu þegar ég kom aftur inn. Ég hélt þá að hún væri farin. um korteri seinna kom hún fljúgandi að mér og ég var snögg að grípa stærðfræðibókina og kramdi hana í klessu. Þetta kennir moskítóflugunum að abbast ekki upp á mig.




Mér líður ágætlega hérna og ég er að venjast þessu öllu saman. Það er mjög skrítið að vera ekki á Íslandi og hitti ykkur öll daglega en "Ég nýt þess að vera hér og nú í augnablikinu" (eins og einhver gullkorn sögðu mér).

7.9.11

Fyrstu dagarnir í France


Ferðalagið
Ferðalagið byrjaði Föstudaginn 2.september þegar ég vaknaði klukkan 4 um nóttina.  Ég kvaddi flest alla vini mína kvöldið áður og var það mjög erfitt, og ég áttaði mig ekki alveg á því hve langur tími þetta væri. Mér fannst líka alveg rosalega erfitt að kveðja fjölskylduna mína, ef ekki erfiðast. Þetta eru rúmlega 10 mánuðir og að sjá þau ekki í allan þennan tíma er alveg óhugsandi. Ég vissi því ekki hvernig ég ætti að haga mér þegar ég kvaddi þau. 

Elsku besta Veró mín <3
Á flugvellinum var erfitt að kveðja mömmu og pabba og ég fékk kökk í hálsinn en vildi ekki gera hlutina verri með því að fara að gráta. 
Fluginu seinkaði um 2 tíma og sátum við skiptinemarnir því salla róleg og vorum að spjalla.
Á flugvellinum tók kona á móti okkur og við biðum í rúmlega 1 tíma á flugvellinum eftir öðrum skiptinemum sem voru týndir. Það voru 33°C úti og við því öll að svitna eins og svín í rútinni á leiðinni á gistiheimilið (mér fannst skrítið að rútan var ekki með öryggisbelti því að hún keyrði á hraðbrautinni og AFS er alltaf að passa upp á að það komi ekkert fyrir okkur). Á gistiheimilinu fengum kex og epli en vatnið var búið; og við öll að deyja úr þorsta. Þegar við fengum loksins vatn, þá sá ég strax eftir því að hafa ekki þambað trilljón glös af íslensku vatni vikuna áður en ég kom, vegna þess að vatnið hérna er ekki verulega gott (er samt búin að venjast því núna).
Okkur var skipað í herbergi og ég var ég í herbergi með stelpu frá Belgíu og annari frá USA. Ég fékk þá að fara í sturtu sem var ólýsanlega þægilegt.

París
Þann 3.september fórum við í skoðunarferð um París. Við vorum í rútunni allantímann en fengum að fara út fyrir utan Effelturninn :) Aftur var rosalega heitt úti.
Effel turninn

Á gistiheimilinu fórum við síðan í umræðuhópa, en þeir voru ekkert merkilegir. Um kvöldið var samkoma í salnum og þar var verið að segja okkur hvernig morgundagurinn yrði. Einnig áttum við að æfa okkur að heilsast að frönskumsið = kyssast með kinnunum 2 sinnum.
Spenningurinn á þessu stigi var gífurlegur en það sama átti við um stressið.

4.september
Vöknuðum 6.45 og fórum í rútu á lestarstöðina klukkan 8. Lestin mín lagði síðan afstað klukkan 10.29. Tilfinningar mínar voru í skemmtilegri rússibanaferð allan daginn. Þegar við stigum út úr lestinni kom hópur hlaupandi á móti okkur og voru það AFS-sjálfboðaliðarnir. Löbbuðum um 100 metra og þá sáum við fósturfjölskyldurnar okkar. Það var verulega skrítið því ég hafði einungis séð þau í gegnum tölvu og haft þannig samband við þau. Ég vissi ekkert hvernig þau væru en samt var ég að fara að búa hjá þeim í rúmlega 10 mánuði.
Við fórum á fund um leið og við komum en hann var lengstan tímann á frönsku :/

Ég var búin að sjá myndir af húsinu "okkar" en aldrei af herberginu "mínu", það var því mjög skrítið að labba inn í það og hugsa sér að ég myndi sofa í því í allan þennan tíma. Það var ennþá skrítnara að pakka upp úr töskunni inn í skápinn. Ég reyndi að koma því inn í hausinn á mér að ég myndi ekki pakka ofan í töskuna aftur. Þetta var MITT rúm, MINN fataskápur, MITT herbergi, MITT heimili.

Maroua kynnti mér fyrir vinkonu sinni Céliu. Hún er mjög fín.
Ég hélt ég myndi ekki getað sofnað um kvöldið, en sofnaði um leið og ég slökkti ljósið.

Skólinn
Í stuttu máli = dreeeep leiðinlegur !
Ég vil ekki vera neikvæð, en þetta eru einfaldlega (sannar) staðreyndir: Ég skil ekki neitt. Ég skil ekki neitt. Skólinn er rosalega langur (7.55-17.45 (næstum 10 tímar)) og aðeins og langur eyður (5 tímar mest). oog já ég skil ekki neitt , var ég kannski búin að segja það?
"skemmtilega" stundataflan

2 jákvæðar staðreyndir eru þær að hádeigismaturinn er í 1 tíma og ég er í skólanum í 2 tíma á miðvikudögum.
60-70% skólanns reykir, ef ekki meira. Veit ekki hvort þið vissuð það en ég hata reykingar!
Það er erftitt að eignast vini hérna án þess að þau reyki, það eru þó alltaf undantekningar.

Maturinn
Maturinn á gistiheimilinu var ekki sérlega góður og vorum við öll hrædd að maturinn hjá fjölskyldunum okkar yrðu einnig svona (en sem betur fer er það ekki). 
Maturinn í skólanum er ekki heldur sá besti, en hann er ætilegur.
Maturinn hérna heima er mjög góður og aldrei svínakjöt (lýst mjög vel á það) :D Latifa (mamman) er búin að elda sér rétti fyrir mig því að þau eru svo vön að borða sterkt og hún vill venja mig á það með því að hafa þá ekki svo sterka hjá mér.
Hér er líka brauð með öllu. Allann daginn.

Almennt
Maroua er búin að hjálpa mér alveg helling og kennir mér ýmsa hluti á frönsku daglega, ég reyni að muna þetta, en þetta er svo mikið menningarsjokk.
Þegar fólk er að tala saman á frönsku þá stend ég (eða sit) hjá þeim og stari á þau. Ég veit ekki afhverju ég horfi bara, ætli ég haldi ekki bara að ef ég stari þá koma franskan einfaldlega til mín. Mjög líklega gerir hún það ekki, en ég er orðin frekar óþolinmóð að ég skilji ekkert.
Krakkarnir hér eru reyndar mjög almennilegir og reyna að hjálpa mér eins og þeir geta. Þau eru búin að segja að þau séu til staðar fyrir mig ef mig vanti einhvað og það er alveg æðislegt :) Ég er því búin að eignast nokkra vini. En vinkona mín sem er mest hjá mér þessa dagana er heimþráin. Hún eltir mig út um allt eins og skugginn. Ég hef reyndar komist að því að hún sprettir í burtu um leið og ég umgengst annað fólk og hlæ. En hún sprettir jafn hratt til baka þegar ég er ein.



Ég sakna ykkar á Íslandi mjög mikið en það eina sem er að stoppa mig frá því að koma aftur heim er þrjóskan. Við sjáum til hvað hún er sterk og ég vona að ég nái geti tekið þátt í umræðum fyrir jól.
Elska ykkur öll <3