Ég er rosalega sátt við flest allt hérna og það má segja að þetta sé ekki eins og á Íslandi. Eins og flest ykkar kannski vita þá heilsast fólk hér með 2 kossum á hvora kinnina (strákar taka hinsvegar í höndina á öðrum strákum). Ef við segjum sem svo að ég hitti í minnsta lagi 15 manneskjur á dag þá þýðir það að ég "gef" 30 kossa = 150 kossar á viku (skólaviku) = 480 kossar fyrir 17 skóladaga. Fyrir hverja fótboltaæfingu heilsa ég öllum stelpunum (þær eru um það bil 15-20) með þessari aðferð. 1 æfing = 30 kossar. 4 æfingar = 120 kossar.
Ég myndi því segja að 600 kossar fyrir 26 daga sé met hjá mér.
Talandi um met þá er ég búin að setja nokkur hérna, t.d. að ég er búin að halda draslinu í herberginu mínu í skorðum.. Í rúmlega 3 vikur !!
Líkt og ég hef nú þegar tilkynnt þá er maturinn hérna á heimilinu mjög sterkur, en ég fæ sér skammt sem er ekki eins sterkur og þeirra. Latifa sterkir matinn minn vikulega og þá fyrstu dagana er hann mjög steeeerkuuur! Ég er samt búin að finna upp á lausn til að getað borðað þennan sterka mat og hún er sú að vera alltaf með einhvern mat upp í mér og þá finn ég ekki að maturinn er sterkur fyrr en ég er alveg búin að borða;) Ég er síðan allt jafn stolt af mér þegar mér finnst maturinn ekki sterkur.
Við sátum öll úti í garði um daginn og vorum að borða brauð og ávexti. Yassine ákvað að smakka chilli (ósoðið) sem þau eru að rækta í garðinum (þau eru græn). Honum fannst það ekkert sterkt svo að Latifa sagði honum að taka gult. Hann fékk sér bita og með erfiðismunum kyngdi hann honum. Latifa tók við chillinu, tók einn bita sem var komin út úr henni 3 sekúndum seinna. Yassine sagði mér að snerta þetta bara með tungubroddinum en ég sagðist ekki vilja það. Án þess að fatta hvað ég væri að gera tróð ég litla puttanum inn í chillið (gleymi stundum að hugsa). Mér byrjaði strax að svíða undir nöglinni þannig að ég ætlaði að sleikja í burtu safan af chillinu. Það var alls ekki svo góð hugmynd. Tungan mín bókstaflega logaði eftir að hún hafði snert puttann minn í 2 sekúndur. Ég reyndi að losna við þetta með því að borða brauð (var reyndar orðin pakksödd) en það var ekki að virka. Loginn var núna kominn á varirnar mínar. Ég fór og fékk mér jógúrt og hreinlega mokaði því öllu á tunguna og varirnar. Ég leit út eins og hálfviti en þetta hjálpaði allanvega í einhverntíma.
Fólk hérna spyr mig afhverju ég sé komin til Frakklands, þá segi ég að mig langaði svo að læra nýtt tungumál. Þá spyr það afhverju ég hafi þá valið að koma til Frakklands og læra frönsku en ekki valið annað land með öðru tungumáli.
(Ég fór því að hugsa um þetta og spurði mig að því sama. Afhverju valdi ég frönsku afhverju ekki spænsku, portúgölsku eða ítölsku. Ég áttaði mig allt í einu á því að ég var verulega sokkin inn í þetta mál og ákvað að hugsa ekkert meira um það því að það myndi ekkert hafa svo góð áhrif. Ég hugsaði svo hvað það væri einfaldlega frábært að ég hafi haft kjarkinn til að gera einhvað sem er svona allt öðruvísi og það á eigin spýtur. Og ég var að læra nýtt tungumál.)
Þau spurðu mig svo líka hvað ég yrði hérna lengi. 10 mánuði sagði ég. "Og hvenær ferðu svo heim í Desember/ í vetur?" "Ömmm. Ég fer ekki heim. Ég verð hérna samfellt í 10 mánuði." Þá missa allir andlitið haha :D
Það er svo margt sem mig langar að segja ykkur, en það er ekki alveg nægilega merkilegt til að lengja þetta blogg um of, og hafa það of langt ;)
Ég sakna ykkar allra alveg óendanlega mikið og eins og undan farna daga er ég ekki að fatta þennan tíma sem ég verð frá ykkur.
![]() |
vous me manques :* |