Ég ætla að reyna að blogga eins oft og ég get, en núna er daglega rútínan mín að fara að byrja að fullu og því erfitt að finna frí tíma til að blogga.
Skólinn
Líkt og ég sagði í síðasta bloggi þá er skólinn hérna ekkert voðalega skemmtilegur og skóladagarnir eru frekar langir.
Mér fannst kennarnir gefa nemendunum alltof mikið heimanám í síðustu viku.. en það sem þeir eru að gefa þeim núna er meira en alltof mikið. Ég "þarf" samt sem áður ekki að læra heima í neinu (af því að ég bókstaflega get það ekki), nema stærðfræði, þýsku og ensku.
Stærðfræði er frekar erfið á íslensku en þegar hún er á frönsku (leiðbeiningarnar og útskýringarnar) þá má segja að hún sé sjúúklegaa erfið.
Virðingin hérna fyrir kennurunum er mun meiri en á Íslandi. Hér þarf að standa upp fyrir kennaranum (í byrjun tímans) og það má ekki setjast fyrr en hann gefur leyfi til þess. Maður verður alltaf að rétta upp hönd, þéra þá og sé frú eða herra fyrir framan ættarnafn þeirra.
Það má helst ekki tala neitt (nema í samvinnuverkefnum), það má ekki yfirgefa skólastofuna fyrr en bjallan hringur (en kennarinn heldur bekknum samt lengur ef tímaverkefninu er ekki lokið). Það má ekki fara á klósetið í tímum og bannað að fara fram að snýta sér, maður verður bara að láta vaða fyrir framan allann bekkinn (ekki sérlega þægilegt).
Vinnufriðurinn er samt sem áður ótrúlega þægilegur hérna, þegar kennarinn segir bekknum að vinna verkefni upp úr bókinni þá gera það allir (nema ég auðvitað því ég skil ekki neitt).
Frakkar
Mér og fjölskyldunni kemur vel saman; sérstaklega mér og Maroua. Við erum með sama húmorinn og getum því hlegið saman, sem mér finnst mjög fínt. Vinkonur hennar eru núna vinkonur mínar.
Ég er ekki í sama bekk og hún og er ég því líka búin að eignast vini í bekknum mínum. Þau eru líka voðalega fín.
Það er frekar fyndið hvað flestir frakkar tala litla ensku ef ekki enga, miðað við það að þeir eru allanvega í 2-3 tímum á viku í ensku.
Maroua og tvær vinkonur hennar eru nokkuð góðar í ensku og eru því fljótar að grípa til hennar þegar ég skil ekki einhvað. Ég bið þær þá að tala við mig franglais (frönsku blandaða við ensku) og það er að ganga ágætlega. Og ef ég skil ekki þá flýtur þessi setning út úr mér :"Je ne comprends pas désolé."
Trente quatre
Trente quatre eða þrjátíu og fjórir er "leikur" sem Yassine og Maroua taka alltaf þátt í. Hann er þannig að þegar klukkan er ??:34 þá á að standa upp og snúa sér í hring, það er ekki flóknara en það. Þau gera þetta alltaf við matarborðið og Maroua sagði mér að bekkurinn hennar gerir þetta stundum og þá kennarinn skilur ekkert í því. Þetta er víst voða mikið fjör. :)
Umhverfið
Undanfarna daga hefur verið rosalega heitt og mikil sól. Frökkunum finnst þessi hiti samt ekkert voðalega mikill. Ég var að labba heim frá búð sem var í 40 min fjarlægð, frá húsinu "MÍNU", með sólina í bakið og ég sólbrann.
Hér eru fullt af moskítóflugum og það kom ein inn í herbergið mitt og beit um á 4 stöðum. Á lærinu, hendinni, andlitinu og maganum. Þetta eru líka engin smá kýli sem ég fékk.
Ég úðaði skordýraeitri út um allt herbergið mitt að til reyna að drepa hana, en ég sá enga dauða flugu á gólfinu þegar ég kom aftur inn. Ég hélt þá að hún væri farin. um korteri seinna kom hún fljúgandi að mér og ég var snögg að grípa stærðfræðibókina og kramdi hana í klessu. Þetta kennir moskítóflugunum að abbast ekki upp á mig.
Mér líður ágætlega hérna og ég er að venjast þessu öllu saman. Það er mjög skrítið að vera ekki á Íslandi og hitti ykkur öll daglega en "Ég nýt þess að vera hér og nú í augnablikinu" (eins og einhver gullkorn sögðu mér).
No comments:
Post a Comment