Ég er ekki að segja að dagarnir mínir hérna séu einhvað léttir, alls ekki; Þetta er alls ekki dans á rósum. Ég er ekki sátt við hvernig flestum hlutum er háttað hérna, en ég er ekki hérna til að breyta heiminum (ekki eins og ég geti það einhvað). Ég verð bara að sætta mig við allt og lifa sem Frakki í rúmlega 8 mánuði í viðbót.
Mér finnst það svo óraunverulegt að það séu bara 4/5 af ferðinni eftir. Mér finnst ég búin að vera hérna í svo stuttan tíma, en samt er eins og ég hafi búið hérna í nokkur ár.
Pokerkvöld á heimilinu. endaði svo með því að vinna, bara svo það sé á hreinu;) |
Ég fór með yngstu systurinni til Lyon seinasta miðvikudag. Við vorum þar fram á föstudag. Ég missti mig aðeins í öllum búðunum og þegar ég kom heim og sá upphæðina sem var farin út af kortinu mínu.. þá sá ég auðvitað strax eftir því. Ég fékk skammtíma ánægju. Fataskápurinn minn sem var tómur á þriðjudaginn var orðin stútfullur á laugardaginn. Hvernig á ég að koma þessu öllu heim?
Ég held stundum að ég sé að reyna að láta söknuðinn hverfa með því að versla. Ég er allanvega komin í verslunarbann fram að jólum. Gaman að segja frá því að ég er líka ekki búin að borða nammi í 1 mánuð :)
Lyon er æðisleg borg. Þar sem ég er að reyna að bæta frönskuna mína þá ákvað ég að (reyna) að tala við starfsfólkið allstaðar á frönsku. Þau spurðu mig að einhverju (allt svona frekar basic orð og spurningar) og ég svaraði á frönsku. Þau byrjuðu þá alltaf að tala við mig á ensku haha. Hreimurinn og málfræðin eru greinilega ekki alveg að gera sig.
Það er verið að fara að breyta strætókerfinu á morgun. Þannig að núna þarf ég að vakna 5 mín fyrr því að skólastrætóinn kemur 5 mín fyrr en vanalega. Einnig verður flóknara ferli að komast á fótboltaæfingar. Og það mun taka ennþá lengri tíma en vanalega. Gaman gaman.. en ég finn út úr þessu.
Klukkunni var líka breytt fyrir 2 dögum, svo núna er einungis 1 tíma munur á Frakklandi og Íslandi.
"Gaman" að segja frá því að ég vaknaði um daginn með 10 moskító bit. Og helmingur af þeim er í andlitinu á mér. Ég sem hélt að þessi helvítis kvikindi væru dauð.
Skólinn byrjar aftur á morgun eftir 1 1/2 vikna frí. Þá byrjar venjulega rútínan aftur. Ég get ekki sagt að mig hlakki til.
Mig langar alveg svakalega að koma aftur til Íslands. Facebook er ekki að gera mér létt þessa dagana og ég er alltaf að skoða myndirnar hjá ykkur.
Núna er fjölskyldan mín, ásamt ömmu og afa, bræðrum mömmu og fjölskyldur þeirra að fara út til Flórída saman. Það tekur alveg verulega á (þó svo að það sé kannski asnalegt). Þetta er bara staður sem ég dýrka og dái ; og þau eru öll að fara þangað saman að hafa gaman; og þess vegna er þetta erfitt.
Ég velti því oft fyrir mér hvort þið saknið mín jafn mikið og ég sakna ykkar. Hvernig lífið ykkar heldur áfram án mín. Ég get allanvega staðfest það að lífið mitt er verulega öðruvísi, ooog tómlegt án ykkar allra.
Það sem er samt að halda mér hérna er þessi gríðarlega þrjóska sem ég hef. Ég veit að þegar ég kem heim aftur þá mun ég meta alls svo mikið betur og virkilega skilja og sjá hvað ég hef það gott á Íslandi. Eitt lítið dæmi er vatnið. Að getað farið í heitt bað eða langa sturtu. Að drekka ískalt vatn beint úr krananum. Líka það að getað verið með ykkur öllum. Það er alls ekki sjálfsagður hlutur; á meðan ég var á Íslandi hélt ég það samt.
No comments:
Post a Comment