Daisypath Vacation tickers

21.12.11

3 dagar í jólin

Þá eru rúmlega 2 vikur síðan ég bloggaði seinast. Þannig að ég hef alveg frá þó nokkrum hlutum að segja.


Ég var á röltinu um bæinn þegar ég ákvað að fara í mína fyrstu klippingu hérna úti. Ég sagði við mig að næsta hárgreiðslustofa sem ég myndi labba framhjá, þar myndi ég fara inn og panta mér tíma. Sem ég gerði. Ég mætti síðan þangað á slaginu 9. á Laugardags morgni og þar var tekið á móti mér. Konan lét mig setjast í stól og setti hárið mitt í vask til að fara að þvo það. Þetta var eitt af því versta sem ég hef upplifað þegar að hún byrjaði. Rennblauta hárið mitt lá þarna í vasknum og mér leið eins og það væri 100 kg, þar sem það togaði svo í hálsinn á mér og svo ætlaði konan að vera rosa góð að gefa mér andlits nudd, en það gerði bara illt verra. Hún lét mig setjast í annan stól og greiddi mér. Síðan bað hún mig um að standa upp, og ég hélt að hún ætlaði að fara með mig eitthvað annað. En nei... Þá átti ég að standa á meðan hún klippti mig. Þannig að ég stóð þarna eins og hálfviti, beint fyrir framan stóra gluggann sem allir geta séð í gegnum, að láta klippa mig, standandi. Þegar allt var svo til búið og ég þurfti að borga þá sagði hún mér að þetta kostaði 48€!! Það eru rúmlega 8000kr., fyrir klippingu! Það var þá vegna þess að hún slétti á mér hárið (það var hún sem bað um að fá að gera það) og vegna þess að ég er með svo "sítt" hár. Auðvitað þurfti ég að labba inn á dýrustu stofuna í bænum; þegar það eru trilljón aðrar í bænum.


12. desember eyddum við AFS krakkarnir heilum degi með einhverfum krökkum. Við sungum, dönsuðum og bökuðum kökur saman. Þetta voru allt krakkar á svipuðum aldri og við, 14-19 ára. Sum þeirra virtust vera ansi venjuleg. Það voru tveir sem gátu haldið ræðu fyrir okkur, og gátu talað bara nokkuð venjulega við okkur. En síðan voru nokkrir sem gátu alls ekkert talað, og önnur sem gátu ekki hreyft sig án þess að gefa frá sér einskonar óp. Ég og Maddie vorum síðan beðnar af strák sem talar voða lítið að lesa Fríða og Dýrið fyrir hann. Hann var 19 ára og gat ekki lesið. Einn strákanna sem hefur aldrei gefið frá sér hljóð eða talað, söng svo í fyrsta skiptið á ævinni þegar við vorum þarna. Hann sagði ekki orð en þetta var samt æðislegt að sjá. Ég áttaði mig á því hvað ég hef það virkilega gott. Ég á ekki að taka neinu sem gefnum hlut.


14.desember átti ég svo afmæli. Badminton kennarinn hérna í skólanum var búin að plata mig til þess að taka þátt í mótinu (sem ég var búin að segja ykkur frá). Ég hugsaði með mér að ég hefði átt verri afmælisdaga, svo þetta myndi ekkert skipta máli. Daginn fyrir afmælið mitt áttaði ég mig samt á því að ég væri hérna til að hafa gaman, til að búa til mínar eigin minningar. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti ekkert að eiga leiðinlegan afmælisdag, svo að ég skráði mig úr mótinu. Ég endaði svo á því að eiga yndislegan afmælis dag. Á miðvikudögum eru allir búnar klukkan 12 um hádegi, þannig að þá fórum við 10 saman út að borða. Svo fór ég fljótlega með Brokke og Maddie heim til Brooke og þar bökuðum við saman afmæliskökuna mína. Það er alveg yndislegt að eiga svona góða að hérna úti. Ég, Maddie og Brooke erum alltaf að verða nánari og nánari og getum talað um allt milli himins og jarðar.
Það var síðan gaman að komast í tölvuna á eftir æfingu og sjá allar kveðjurnar á facebook. Og ennþá skemmtilegra svo að sjá að sætustu mínar sungu handa mér afmælissöngin. :*


Ég fékk svo að vera með sætustu á litlu jólunum þeirra. Fyndið að getað fylgst með því sem er að gerast á Íslandi, þegar maður er sjálfur annarsstaðar. Ég elska Skype ! 


16.desember hitti ég svo mína jóla-host-fjölskyldu. Ég var búin að vera svo sjúklega stressuð, var alveg að farast. Byrjaði að hugsa hvort þetta væri svo góð hugmynd eftir allt saman. Hvort ég væri virkilega óhamingjusöm hjá hinni fjölskyldunni (eftir að ég hef verið hérna aðeins í þó nokkra daga, þá sé ég það virkilega hvað ég var ekki hamingjusöm þarna). Síðan þegar ég kom, þá voru þau strax svo góð og hlý við mig. Mér var boðið allt sem til var í kvöldmatinn. Daginn eftir var það alveg eins með morgunmatinn. Og svo hádegismatinn og svo aftur kvöldmatinn. Þau vildu að mér myndi líða vel.
Seinasta sunnudag fórum við svo til Besancon. Skoðuðum þar jólamarkað og það var allt bara frekar jólalegt, vantaði bara snjóinn.


Á þessum tvem vikum er ég búin að keppa tvo leiki. Annar var með meistaraflokknum, og hann endaði ekki það vel. Töpuðum 3-0 á móti liðinu sem er efst í riðlinum. Síðan keppti ég líka seinasta laugardag með U-18 liðinu. Þetta er frekar fyndið að keppa með þeim, þar sem ég er elst (flestar stelpurnar svo 1-2 árum yngri en ég), en svo er markmaðurinn okkar '98 módel. Unnum þann leik samt 3-2, og þótt að ég hafi skorað, þá var þetta einn af verstu leikjunum sem ég hef átt. Það eru líka mikil viðbrigði að spila allt í einu 7 manna bolta aftur.


Ég er alveg rosalega sátt við þessa fjölskyldu.  Mér líður mikið betur en mér leið fyrir tæplega viku. Þessi fjölskylda er yndisleg og þau eru dugleg að hjálpa mér.
Þau báðu mig svo um að kenna sér nokkur íslensk orð og auðvitað byrjaði ég á því að kenna þeim erfitt orð: "Eyjafjallajökull". Stelpan er samt alveg að ná þessu. Hún fékk sér síðan 'app' í ipodinn sinn til að læra íslensku og var að því í allt gær kvöld.



Ég bakaði lakkrís og nóakropps toppa í gær. Jólatréð og stofan eru skreytt. Alltaf eldur í arninum, þannig að þetta er allt saman að verða ansi jólalegt. En það toppar samt ekkert íslenskan jólaleika.
Auðvitað langar mig að vera heima um jólin, en ég fæ þá bara að upplifa íslensk jóla á næsta ári. Og þau munu sko verða geðveik!
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og ég vona að þið eigið gott "frí" :)
Bisous :*
ps. er búin að fá alveg yndislega pakka. T.d. hangikjöts álegg frá ömmu Böddu (til að fá smá íslenskt jólabragð). Og svo auðvitað nammið frá Furó18. Ég er alveg sjúúk í íslenskt nammi um þessar mundir.

6.12.11

Ég er þakklát fyrir þessa upplifun, þó svo að hún sé erfið!

Eins og svo oft áður er ég að velta því fyrir mér afhverju ég sé hérna. Ég vil alls ekki vera að kvarta þar sem það var ég sem ákvað að koma hingað. Það var ég sem vildi breyta til. En eins og stjörnuspáin mín sagði um daginn :
"Breyting, breytingana vegna, er einungis flótti frá raunveruleikanum".
Þannig ég fór virkilega að pæla í því (sem er ekkert svo hollt fyrir mig) en þá fatta ég í rauninni ekki af hverju ég kom hingað. En það er svo sem of seint að breyta því núna.. Ég er komin hingað og þrjóskan mín er svo þrjósk að ég held ég verði að klára þetta ár! Annars held ég að ég muni sjá eftir því alla mína ævi.
Ég er samt alveg rosalega þakklát. Ég er þakklát fyrir það að vera að læra frönsku. Fyrir það að ég sé að upplifa eitthvað glænýtt. Ég er þakklát fyrir það að verða sjálfstæðari. Ég er líka þakklát fyrir það að fatta hvað ég hef það alveg æðislegt á Íslandi! Ég er þakklát fyrir mömmu og pabba sem gerðu það kleift fyrir mér að koma hingað (og jú auðvitað ömmu og afa sem hjálpuðu líka aldeilis til). 
Seinasta miðvikudag fór ég að keppa í badminton og ég vann alla leikina mína. Gamla bara að rifja upp gamla takta:p Skólinn minn er skráður í eitt mót en mótinu er skipt niður í 3 daga. Eitthverja 3 miðvikudaga frá nóvember fram í janúar. Komst svo að því að leikirnir sem ég keppti á miðvikudaginn gildu ekki í þetta mót; og það var frekar svekkjandi. Alvöru mótið átti að byrja á morgun, en það var fært fram á næsta miðvikudag; sem er 14.des; afmælisdagurinn minn. Svo ég held ég komist ekki þar sem það myndi skemma allt sem ég er búin að plana fyrir daginn :/ Mig langar eiginlega frekar að verja tímanum mínum með stelpunum frekar en að keyra eitthvað út í rassgat og keppa nokkra leiki!
Talandi um mont þá fór ég í Physique-chemie próf um daginn. og ég fékk 4!!! Reyndar af 20, en það er annað mál.. Var alveg sérlega ánægð sérstaklega þar sem stelpan við hliðin á mér fékk 7! Allt að koma hjá mér.
Á laugardaginn var svo AFS jólahátíðin. Allir skiptinemarnir áttu að vera með smá atriði. Ég sem er alveg hæfileika laus, var því í frekar miklu basli við að finna eitthvað til að gera. Maddie kom mér svo algjörlega til bjargar, og við vorum með lítið fótbolta atriði. Vorum alveg heil lengi að reyna að ná öllu rétt. Það virtist ekkert ganga upp þegar við vorum að æfa okkur og því alveg rosalega mikið stress í gangi þegar við áttum að flytja þetta fyrir framan alla. En svo heppnaðist allt bara nokkuð vel; fyrir utan það að ég þurfti að klúðra smá.   Það má horfa á atriði mitt og Maddie hér Það var fullt af atriðum, þar á meðal, salsa, hiphop, japanskur blævænga dans, söngur, píanó leikur og galdrar. Þetta var annars bara nokkuð skemmtilegur dagur, þessi laugardagur sem við áttum í Dijon. Við tókum lestina klukkan 10.48 um morguninn hittumst svo öll og fengum okkur hádegismat. Eftir matinn þá var eiginlega rekið okkur niðrí bæ, en við vorum frekar treg til að fara. Ég var síðan nokkuð ánægð að hafa farið þar sem við fórum í H&M! Það er eitt af því sem ég elska við Frakkland að um leið og maður fer í alvöru borg þá er allt að finna þar!! 

Brooke, ég og Maddie í H&M !

Þar sem fóstur-fjölskyldan mín eru múslimar, þá eru engin jól hjá þeim. Ég var frekar ósátt við það, og AFS fattaði það alveg, svo að þau fundu fjölskyldu handa mér til að vera hjá um jólin. Ég er eiginlega bara nokkuð ánægð, en samt verður það skrítið.. að fara til fólks sem ég þekki ekki neitt og vera hjá þeim yfir hátíðirnar (en þetta er bara eins og áður ég kom hingað þá þekkti ég fóstur-fjölskylduna mína ekki neitt). En ég fæ að upplifa frönsk jól svo ég get ekki kvartað! :D

Sakna ykkar alveg rosalega mikið! :*

14.11.11

Listin að kvarta. Við kunnum hana öll.


Listin að kvarta. Við kunnum hana öll.
Við erum vön að kvarta og kveina þegar okkur líkar ekki við eitthvað. Við látum tilfinningarnar flakka án þess að hugsa okkur fyrst um.
Ég kannast við þetta sjálf; alltaf að kvarta yfir smámunum eins og það að:
-uppáhaldsnammið manns sé ekki til í búðinni.
-þurfa að fikrast áfram eins og snigill á ganginum í skólanum á leiðinni í sögutíma, vegna þess að fókið fyrir framan þig er að labba svo hægt.
-vatnið í vatnsvélinni sé ekki kalt.
-horfa út um gluggann á slæmum vetrardegi og blóta innra með sér og hugsa afhverju maður þyrfti nú að eiga heima á Íslandi.

Það sem við spáum oft ekki í þegar við erum að kvarta um svona smámuni, er það að fólk annarsstaðar er með mikið verri og alvarlegri vandamál. Þessi vandamál eru t.d. krabbamein.
Krabbamein geta bæði verið góð- og illkynja. Í báðum tilvikum er ekkert annað í stöðinni en það að vona að allt verði í lagi; að þessi hræðilega martröð taka brátt enda og allt geti orðið gott aftur.

Með þessum pistli lesandi góði, vil ég biðja þig um að hugsa þinn gang.
-Er virkilega þess virði að kvarta yfir því að uppáhalds nammið þitt var ekki til; þú hefðir hvort sem er séð eftir því að hafa að borða það.
-Afhverju skipta 5-10 sekúndur þig svona miklu máli? langar þig virkilega svona mikið að komast í sögutíma?
-Afhverju ertu að væla yfir því að vatnið sé ekki nógu kalt?; þú hefðir hvort sem er bara fengið heilakul ef það hefði verið kalt.
-Hvað er svo slæmt við það að veðrið sé svona slæmt úti? Er það ekki bara kósý að hnipra sig þá undir teppi og horfa á mynd með fjölskyldunni?

Við skulum öll hugsa jákvætt um þessar mundir (og bara alltaf). Hugsum eins og Pollýanna vinkona okkar. Hugsum til þess að það er hátíð í vændum; hátíð fjölskyldu og friðar. Við skulum einnig hugsa til þeirra sem eru verr stödd. Við skulum hugsa til þeirra sem eru að glíma við erfiða baráttu um þessar mundir og við skulum óska þeim öllum góðs bata.

Hugsum okkar gang og hættum að kvarta!

11.11.11

11.11.11

Í dag er ég búin að vera hérna í 10 vikur það gera heila 70 daga. Þetta er allt svo óraunverulegt. Þetta er að líða svo óhemju hratt; það er komin helgi áður en ég veit af. Núna eru einungis 35 vikur eftir. Ég get bæði verið glöð og leið yfir því.


Ég er búin að fá nokkra æðislega pakka frá Íslandi. Þar á meðal fékk ég tamari ristaðar möndlur (my everything <3) síðan er ég líka búin að fá nokkur bréf sem gleðja mig alltaf jafn mikið. Ég fékk líka senda bókina Pollýanna frá fjölskyldunni minni en bókin er að hjálpa mér mikið. Ég fékk ábendingu frá Árný Láru um að hún gæti hjálpað mér eins og hún hjálpaði henni. Fyrir þau ykkur sem vita ekki hver Pollýanna er, þá er þetta lítil stelpa sem er alltaf að leika einn leik (gerir auðvitað líka aðra hluti...) en þessi leikur gengur út á það að finna alltaf það jákvæða við allt. Ég er að reyna að leika þennan leik daglega. Það er að ganga misvel en hérna eru þó nokkur dæmi:
  • Ég get glaðst yfir því að skóladagurinn hérna sé langur, vegna þess að þegar ég kem aftur til Íslands þá virðast dagarnir þar vera styttri fyrir mér.
  • Ég get glaðst yfir því að sjá myndir af fjölskyldunni minni á Flórída, því þá getur mér hlakkað til að getað gert sömu hluti með þeim bráðlega.
  • Ég get glaðst yfir því að kunna ekki frönsku núna (þó svo að það sé sjúklega pirrandi), því þá þarf ég ekki að gera heimavinnuna.
  • Ég get glaðst yfir því að vera svona lengi frá fjölskyldunni minni og vinum, því þegar ég kem aftur þá verður samband okkar betra og sterkara.
... og svona gæti ég haldið "endalaust" áfram.

Síðust helgi fór ég með AFS krökkunum á mínu svæði til Besançon. Við þurftum að keyra í rúmlega einn og hálfan tíma. Við gerðum voða lítið, en þetta var samt æðislegt. Við löbbuðum um allann bæinn og vorum bara spjalla. Mér finnst ótrúlega þægilegt að tala við þau. Ég tala lang mest við Brooke og Maddie, og það er eins og við séum búnar að þekkjast í nokkur ár. Við getum sagt hver annari allt og það besta er að við skiljum hver aðra svo vel. Þetta er reyndar svona með alla skiptinemana hérna við erum öll svo náin því að við vitum hvað hinn aðilinn er að gangi í gegnum, því við erum að ganga í gegnum það sama.

Skiptinemarnir á mínu svæði
AFS eru skiptinemasamtökin sem gerðu mér kleift að koma hingað. Margir vilja þó halda því fram að AFS standi fyrir "Another fat student". Þetta er eitt af áhyggjuefnunum hjá flestum skiptinemunum. Það langar eiginlega engum að verða AFS. Við skiptinemarnir vorum að tala um þetta þegar um mánuður var liðinn af dvölinni okkar hérna. Það sögðu mér þá tvær stelpur að þær væru búnar að þyngjast um rúmlega 6 kíló. Ég fékk sjokk. 6 kílóum þyngri eftir einn mánuð. Þær sögðust bara ekki getað staðist það að fara í næsta bakarí að fá sér einhvað gómsætt (það eru líka bakarí út um allt hérna). Ég er búin að halda mér á þokkalega striki hérna, 1-2 kíló upp og niður eru nú ekkert mikið.

Franska er erfið punktur

Ég er farin að skilja aðeins meira; en ég skil ennþá ekkert þegar kennarinn er að tala upp á töflu. Ég er búin að eignast æðislega nýja vini í skólanum sem að skilja að ég er hérna til að læra frönsku; þannig að þau tala frönsku við mig og ef ég skil ekki eitthvað þá þýða þau það fyrir mig. Ég reyni að svara á frönsku og þegar ég kann ekki orðið þá treð ég enska orðinu inn í setninguna.
Ég var að tala við skiptinema um daginn sem kann lítið sem enga ensku en er ágæt í frönsku. Þannig að áður en ég vissi af var ég að tala við hana á frönsku... ooog hún skildi mig! SUCCESS! (þetta voru reyndar ekkert flókin orð en samt...)
Það sem mér finnst frekar fyndið eftir á er að ég er fór allt í einu að skilja meiri frönsku. Ekkert það að ég skilji geðveikt mikið núna, en bara allt í einu fór ég að skilja samhengið í því sem fólk var að segja við mig. Mér langar helst bara að getað talað frönsku núna! Get ekki beðið eftir að getað talað hana reiprennandi (sem ég er rétt svo að vona að ég geti!).
Nokkur atvik þar sem ég get ekki nota leikinn hennar Pollýönnu er t.d. þegar ég er í stærðfræði. En strákurinn sem situr við hliðina á  mér er of virkur og með þvílíkan athyglisbrest. Hann er alltaf að tromma með pennanum, sparka í stólinn minn, flauta og bara allt sem er sjúklega pirrandi þegar maður er að reyna að einbeita sér. Ætla samt ekki að fara að æsa mig við hann. Frekar kjánalegt. 

Einn æðislegur punktur sem ég elska við þennan dag; fyrir utan það að 11.11.11 er geðveik dagsetning; er það að í dag giftist ég ástinni minni henni Elísu:*

Ég sakna ykkar allanvega rosalega mikið <3




Vous me manquez beaucoup:*

1.11.11

Ég verð bara sterkari fyrir vikið..

Ég hef komist að því að þegar maður er skiptinemi í allt öðru landi frá öllum öðrum, þá hættir maður að hafa áhyggjur af litlu hlutunum; eins og að detta næstum því í stiganum í skólanum, maður hættir að reyna að ímynda sér hvað aðrir hugsa um mann. Maður verður afslappaðri. Meira maður sjálfur. Það má því segja að ég er farin að þekkja mig betur og með hverjum deginum sem líður, styrkist ég.

Ég er ekki að segja að dagarnir mínir hérna séu einhvað léttir, alls ekki; Þetta er alls ekki dans á rósum. Ég er ekki sátt við hvernig flestum hlutum er háttað hérna, en ég er ekki hérna til að breyta heiminum (ekki eins og ég geti það einhvað). Ég verð bara að sætta mig við allt og lifa sem Frakki í rúmlega 8 mánuði í viðbót.
Mér finnst það svo óraunverulegt að það séu bara 4/5 af ferðinni eftir. Mér finnst ég búin að vera hérna í svo stuttan tíma, en samt er eins og ég hafi búið hérna í nokkur ár.
Pokerkvöld á heimilinu.
endaði svo með því að vinna, bara svo það sé á hreinu;)
Þegar öll eldri systkinin eru heima þá finnst mér ég vera hluti af hópnum, eins og ég sé hluti af fjölskyldunni. Þetta er tímabundna fjölskyldan mín. Og ég veit ekki hvernig þetta mun vera þegar ég yfirgef þau.

Ég fór með yngstu systurinni til Lyon seinasta miðvikudag. Við vorum þar fram á föstudag. Ég missti mig aðeins í öllum búðunum og þegar ég kom heim og sá upphæðina sem var farin út af kortinu mínu.. þá sá ég auðvitað strax eftir því.  Ég fékk skammtíma ánægju. Fataskápurinn minn sem var tómur á þriðjudaginn var orðin stútfullur á laugardaginn. Hvernig á ég að koma þessu öllu heim?

Ég held stundum að ég sé að reyna að láta söknuðinn hverfa með því að versla. Ég er allanvega komin í verslunarbann fram að jólum. Gaman að segja frá því að ég er líka ekki búin að borða nammi í 1 mánuð :)
Lyon er æðisleg borg. Þar sem ég er að reyna að bæta frönskuna mína þá ákvað ég að (reyna) að tala við starfsfólkið allstaðar á frönsku. Þau spurðu mig að einhverju (allt svona frekar basic orð og spurningar) og ég svaraði á frönsku. Þau byrjuðu þá alltaf að tala við mig á ensku haha. Hreimurinn og málfræðin eru greinilega ekki alveg að gera sig.

Það er verið að fara að breyta strætókerfinu á morgun. Þannig að núna þarf ég að vakna 5 mín fyrr því að skólastrætóinn kemur 5 mín fyrr en vanalega. Einnig verður flóknara ferli að komast á fótboltaæfingar. Og það mun taka ennþá lengri tíma en vanalega. Gaman gaman.. en ég finn út úr þessu.
Klukkunni var líka breytt fyrir 2 dögum, svo núna er einungis 1 tíma munur á Frakklandi og Íslandi.

"Gaman" að segja frá því að ég vaknaði um daginn með 10 moskító bit. Og helmingur af þeim er í andlitinu á mér. Ég sem hélt að þessi helvítis kvikindi væru dauð.
Skólinn byrjar aftur á morgun eftir 1 1/2 vikna frí. Þá byrjar venjulega rútínan aftur. Ég get ekki sagt að mig hlakki til.

Mig langar alveg svakalega að koma aftur til Íslands. Facebook er ekki að gera mér létt þessa dagana og ég er alltaf að skoða myndirnar hjá ykkur.
Núna er fjölskyldan mín, ásamt ömmu og afa, bræðrum mömmu og fjölskyldur þeirra að fara út til Flórída saman. Það tekur alveg verulega á (þó svo að það sé kannski asnalegt). Þetta er bara staður sem ég dýrka og dái ; og þau eru öll að fara þangað saman að hafa gaman; og þess vegna er þetta erfitt. 

 Ég velti því oft fyrir mér hvort þið saknið mín jafn mikið og ég sakna ykkar. Hvernig lífið ykkar heldur áfram án mín. Ég get allanvega staðfest það að lífið mitt er verulega öðruvísi, ooog tómlegt án ykkar allra. 

Það sem er samt að halda mér hérna er þessi gríðarlega þrjóska sem ég hef. Ég veit að þegar ég kem heim aftur þá mun ég meta alls svo mikið betur og virkilega skilja og sjá hvað ég hef það gott á Íslandi. Eitt lítið dæmi er vatnið. Að getað farið í heitt bað eða langa sturtu. Að drekka ískalt vatn beint úr krananum. Líka það að getað verið með ykkur öllum. Það er alls ekki sjálfsagður hlutur; á meðan ég var á Íslandi hélt ég það samt.

21.10.11

1 vika liðin; ef 1 vika væri 1 dagur í hverri viku


Undanfarnir dagar hafa verið sjúklega erfiðir. Ég get ekki útskýrt hvernig mér líður. En það sem ég get sagt er að:
Mig langar að getað verið með ykkur öllum, gert alla hlutina sem þið eruð að gera á íslandi, með ykkur. Mig langar að getað knúsað ykkur þegar mér sýnist. Mig langar að getað talað við einhvern "face-to-face" án þess að þurfa að endurtaka það sem ég var að segja, því það er svo erfitt að skilja mig hérna(bæði vegna þess að enskan er slæm hérna og ég kann ennþá ekki frönsku). Mig langar að getað labbað í 5 mínútur til þess að komast á fótboltaæfingu. Mig langar að sofa í þægilega rúminu mínu (ekki þurfa að passa mig hvernig ég sest í það, svo að rimlarnir undir því brotni ekki; og þurfa að sofa með bognar fætur vegna þess að ég er of stór í rúmið). Mig langar að drekka gott vatn. Mig langar, mig langar, mig langar... Ég gæti haldið endalaust áfram...
Málið er samt einfaldlega þannig að ég er hérna og verð hérna næstu 268 daga. Mig langar heim en ég vil ekki vera stelpan sem gat ekki höndlað það að vera að heiman sem skiptinemi í 10 mánuði. 

Facebook er að gera mér erfitt þessa dagana og þess vegna ákvað ég að hætta að nota íslenska facebookið mitt og byrja að nota eitt sem er alveg franskt með öllum frönsku vinunum. Þess vegna ákvað ég að stofna þessa nýju blogg síðu þar sem ég get bloggað og sett inn myndir og þar með getið þið fylgst með mér. 

Húsin hérna eru ekki kynduð á haustin sem gerir það að verkum að það er kaldara inni en úti. Undanfarnar vikur er ég því búin að líta svona út: 



Rautt nef og bláar varir.. nammi namm


ég er búin að vera hérna í viku, ef að það væri ein vika í hverjum degi í vikunni. Mér fannst þá vera komin tími á að ég segði ykkur mína eðlilegu rútínu: 
Mánudagar:
Vakna 6.30 er í skólanum til 16.51 þá fer ég heim og hleyp litla 5 kílómetra. "Læra"*, borða, sturta og sofa.
Þriðjudagar:
Vakna 6.30 og er í skólanum til 17.45. Hádegið í skólanum er í 2 tíma og fer ég því í badminton klukkan 12.30 til 13.30 (gamla að rifja upp gamla takta;) ).** Heim, (stundum) hlaup, "læra", borða, sturta, sofa.
Miðvikudagar:
Skólinn byrjar ekki fyrr en 10.05 hjá mér og þá fer ég í leikfimi til 12. Það er enginn strætó á þessum tíma til að fara í skólann svo ég hleyp þangað. *** Klukkan 17.07 tek ég strætó heiman frá mér og er síðan komin í fótboltamiðstöðina klukkan 18.45. Æfingin er búin í kringum 20.30 og 21.00. Borða, sturta og sofa.
Fimmtudagar:
Vakna 6.30 og er í skólanum frá 7.55-17.45. Ekkert mikið annað gert þennan dag vegna þreytu.
Föstudagar:
Vakna 6.30 og er í skólanum til 17.45. Elise sækir mig og skutlar mér að strætóstoppistöðinni svo ég geti tekið strætó klukkan 18.05 á æfingu. Er síðan oftast ekki komin heim fyrr en klukkan 21.30 á kvöldin. rúmlega 14 tímar að heima gera mann nokkuð þreyttann. 
Helgar:
Laugardögum er annað hvort eitt í leti, lærdóm eða hangs niðrí bæ.
Á sunnudögum eru allar búðir lokaðar og þess vegna erum við heima og lærum eða liggjum í leti.

*"Læra" vegna þess að ég get voða lítið lært það sem á að læra í skólanum fyrir utan ensku og þýsku og stöku sinnum stærðfræði. Ég er samt að reyna að læra frönsku með hjálp http://www.babbel.com . 
** Fósturforeldarnir mínir hérna fóru til Túnisíu í 2 vikur og troðfylltu bílinn af hlutum til að selja; þar á meðal var hjólið sem þau voru búin að segja að ég mætti nota; þau voru í rauninni búin að gefa mér það; svo núna verð ég að labba allt (eða hlaupa); það tekur 25 mínútur að labba í skólann minn.
***Kennarinn skráði mig í badmintonmót fyrir hönd skólans; Fyrsta mótið er 26.nóvember, svo er annað 7.desember og eitt annað á næsta ári.

Þar sem ég sakna ykkar allra alveg rosalega mikið og langar að getað knúsað ykkur öll alveg rosalega fast að mér (allanvega í eitt skipti í viðbót); þá finnst mér svo leiðinlegt að sjá allar stelpurnar hérna vera rífast út af ÖLLU!
 
Eitt dæmi:
Það eru tvær systur (við skulum kalla þær Marsa og Líf). Síðan eru tveir vinir (við skulum kalla þau Þórð og Lilju). Marsa og Þórður eru saman í skóla og Líf og Lilja eru með mér í skólanum. Líf og Lilja fóru síðan allt í einu að rífast vegna þess að Marsa hataði Þórð. Þær enduðu á því að biðja allar stelpurnar í vinkonu hópnum um að velja hvort þær myndu standa með Líf eða Lilju. Þegar ég var spurð sagðist ég ekki vera 5 ára og því myndi ég ekki velja á milli, því að þetta væri alveg í hött hjá þeim. Ég held að þær hafi áttað sig á því, vegna þess að daginn eftir voru þær orðnar bestu vinkonur aftur.



Ég er búin að kynnast æðislegri stelpu hérna sem heitir Maddie og hún er skiptinemi frá Bandaríkjunum. Hún æfir með mér fótbolta og hitti ég hana því minnst tvisvar í viku. Ég var með henni alla síðustu helgi og svo á mánudeginum líka. Við náum svo vel saman og erum svo líkar að það er alveg ótrúlegt. Ég veit ekki hvað ég á eftir að gera án hennar, þegar hún yfirgefur mig og Frakkland eftir 14 vikur.

Maddie (USA), ég og Brooke (Nýja Sjáland)


Ég held að þetta sé gott í bili. Átti samt að minnast á það að ég átti rosalega gott skypedate með henni Elísu minni. Vá hvað ég sakna ykkar allra !! :
*

5.10.11

Ce n'est pas facile, mais cela en vaut la peine


Seinustu dagar eru búnir að vera verulega erfiðir. En það er vegna þess að þegar að fólk er veikt hérna, þá fer það samt í skólann. Og það vill svo vel til að ég er einmitt veik núna; og ég get staðfest það að það er rosalega erfitt að vera í skólanum í 10 tíma í senn og já, bókstaflega vera að drepast.
Ég er ennþá ekki að venjast því að þurfa að snýta mér fyrir framan alla. Og þegar maður þarf að eyða 5 pökkum af snýtubréfum á dag, þá er það ekki svo gaman :/

búin að lýta svona út undan farna daga...
Ég skipti um bekk í gær; önnur bekkjarskiptin mín sem sagt. Það eru því margir krakkar hérna í skólanum sem vita hver ég er = útlenskastelpan sem skilur ekki frönsku. Nýja stundataflan mín er ekkert mikið betri, er ennþá alltaf í skólanum frá 8 – 18, nema á miðvikudögum en þeir dagar eru búnar að lengjast til klukkan 12. Ég er núna á Viðskiptafræðibraut og það ætti að vera auðveldara fyrir mig þegar ég verð farin að getað gert verkefni og þess háttar í skólanum.

Ég var að tala við systur mína hérna um hvað mér fyndist félagslífið hérna vera alveg svakalega slakt. Þá sagði hún mér að það væri ekkert í gangi fyrr en í fríunum, það væri vegna þess að skólinn væri svo tímafrekur. Það er víst líka alls ekki vel liðið að fara út á kvöldin, vegna þess að það er svo dimmt og hver veit hvernig brjálæðingar leynast þarna úti á kvöldin. Þannig að ég tel mig vera nokkuð heppna að vera með bestu vinkonu mína undir sama þaki og ég. Við bíðum bara spenntar eftir helgunum og fríunum.

Moi et mon amour
Það má velja um nokkur aukafög hérna í skólanum (þið hugsið þá ef til vill afhverju að velja einhvað meira þegar að skólinn er nú þegar svona langur; en þessi auka fög eru mikið skemmtilegri en hin fögin. Svo ef ég þarf að eyða auka tíma í einhvað skemmtilegt, þá verður það bara að vera þannig (þetta er hvort sem er í eyðunum, þar sem ég væri annars ekki að gera neitt)). Ég er sem sagt í Leiklist og Viðskiptafræði á ensku.

Leiklist er bara nokkuð skemmtileg. Skiptum okkur í nokkra hópa um daginn og áttum að gera lítið leikrit. Ég fékk nú ekki margar setningar, satt að segja fékk ég eina. En þegar ég sagði hana, þá sprungu allir úr hlátri; ég tel það vera út af hreimnum mínum, haha :D Gerum fullt af skemmtilegum æfingum þarna og maður má og getur alls ekki verið feiminn í þessu. Maður þarf að getað gert sig að fífli og vera alveg saman.. er alls ekki í vandræðum með það.
Viðskiptafræði í ensku er bara nokkuð ágæt. Er að komast inn í þetta. Komumst svo að því í dag að þeir sem eru að taka auka áfanga á ensku (eins og ég er að með þessum áfanga) fara í skólaferð til Danmerkur í Febrúar eða Apríl á næsta ári. Mér finnst það svo sannarlega þess virði.

Mér finnst verulega gaman þegar fólk segir við mig að ég sé rosalega góð í badminton. Þannig var mál með vexti að í leikfimi í bekknum mínum(gamla bekknum) vorum við í badminton. Í stuttumáli þá vorum við í riðlakeppni; þú vinnur = upp um völl, þú tapar = niður um völl. Byrjaði á 8. velli og vann mig alla leið upp á 1. völl í einni runu án þess að tapa leik. Og nei ég var ekki bara að keppa við stelpur, síður en svo; þetta voru allt strákar (fyrir utan eina stelpu). Strákarnir voru því verulega skömmustulegir að stelpa hafi unnið þá alla.
Nýi bekkurinn minn er í klettaklifri. Það er alveg rosalega erfitt. Vorum bara að prófa í dag og þetta byrjar í alvöru eftir viku.


Nokkrir skemmtilegir, jafnt sem óskemmtilegir hlutir:
-Einhverjar hluta vegna þá er mikið erfiðara að borða ekki nammi hérna. 
-Ég fer í H&M næstu helgi :D
-Það er ekki vel liðið að líka vel við Justin Bieber... 
-"Bróðir" minn er nokkuð líkur Bruno Mars.
-Fólk alltaf jafn hissa þegar ég svara því á frönsku.
-Fólk notar sms eins og facebookchat. Flestir líka með ótakmörkuð sms.
-Inneign hérna gildir aðeins í nokkra daga (10€ =14 daga, 20€= 30 daga), svo það er hagstæðast að vera með ótakmörkuð sms (ekki það að ég sé mikið að senda sms).
- Það er ekki asnalegt að reykja hérna, en þegar maður kemur með gulrót í skólann... já þá telja allir mann vera asna.

Það er erfitt að vera frá ykkur, en ég verð að einbeita mér að því sem ég ætlaði mér hérna og hætta að hugsa svona mikið um Ísland. Ég sný aftur til gamla lífsins eftir rúmlega 9 mánuði. En eftir þennan stutta tíma þá get ég ekki aftur komið hingað og lifað þessu lífi sem ég er að lifa núna.

28.9.11

26 dagar ; mér líður bara þokkalega

Ég var á Íslandi fyrir 628 klukkustundum sem þýðir að ég er búin að vera í Frakklandi í 26 daga. Þetta er ótrúlegt.

Ég er rosalega sátt við flest allt hérna og það má segja að þetta sé ekki eins og á Íslandi. Eins og flest ykkar kannski vita þá heilsast fólk hér með 2 kossum á hvora kinnina (strákar taka hinsvegar í höndina á öðrum strákum). Ef við segjum sem svo að ég hitti í minnsta lagi 15 manneskjur á dag þá þýðir það að ég "gef" 30 kossa = 150 kossar á viku (skólaviku) = 480 kossar fyrir 17 skóladaga. Fyrir hverja fótboltaæfingu heilsa ég öllum stelpunum (þær eru um það bil 15-20) með þessari aðferð. 1 æfing = 30 kossar. 4 æfingar = 120 kossar.
Ég myndi því segja að 600 kossar fyrir 26 daga sé met hjá mér.

Talandi um met þá er ég búin að setja nokkur hérna, t.d. að ég er búin að halda draslinu í herberginu mínu í skorðum.. Í rúmlega 3 vikur !!

Líkt og ég hef nú þegar tilkynnt þá er maturinn hérna á heimilinu mjög sterkur, en ég fæ sér skammt sem er ekki eins sterkur og þeirra. Latifa sterkir matinn minn vikulega og þá fyrstu dagana er hann mjög steeeerkuuur! Ég er samt búin að finna upp á lausn til að getað borðað þennan sterka mat og hún er sú að vera alltaf með einhvern mat upp í mér og þá finn ég ekki að maturinn er sterkur fyrr en ég er alveg búin að borða;) Ég er síðan allt jafn stolt af mér þegar mér finnst maturinn ekki sterkur.
Við sátum öll úti í garði um daginn og vorum að borða brauð og ávexti. Yassine ákvað að smakka chilli (ósoðið) sem þau eru að rækta í garðinum (þau eru græn). Honum fannst það ekkert sterkt svo að Latifa sagði honum að taka gult. Hann fékk sér bita og með erfiðismunum kyngdi hann honum. Latifa tók við chillinu, tók einn bita sem var komin út úr henni 3 sekúndum seinna. Yassine sagði mér að snerta þetta bara með tungubroddinum en ég sagðist ekki vilja það. Án þess að fatta hvað ég væri að gera tróð ég litla puttanum inn í chillið (gleymi stundum að hugsa). Mér byrjaði strax að svíða undir nöglinni þannig að ég ætlaði að sleikja í burtu safan af chillinu. Það var alls ekki svo góð hugmynd. Tungan mín bókstaflega logaði eftir að hún hafði snert puttann minn í 2 sekúndur. Ég reyndi að losna við þetta með því að borða brauð (var reyndar orðin pakksödd) en það var ekki að virka. Loginn var núna kominn á varirnar mínar. Ég fór og fékk mér jógúrt og hreinlega mokaði því öllu á tunguna og varirnar. Ég leit út eins og hálfviti en þetta hjálpaði allanvega í einhverntíma.

Fólk hérna spyr mig afhverju ég sé komin til Frakklands, þá segi ég að mig langaði svo að læra nýtt tungumál. Þá spyr það afhverju ég hafi þá valið að koma til Frakklands og læra frönsku en ekki valið annað land með öðru tungumáli.
(Ég fór því að hugsa um þetta og spurði mig að því sama. Afhverju valdi ég frönsku afhverju ekki spænsku, portúgölsku eða ítölsku. Ég áttaði mig allt í einu á því að ég var verulega sokkin inn í þetta mál og ákvað að hugsa ekkert meira um það því að það myndi ekkert hafa svo góð áhrif. Ég hugsaði svo hvað það væri einfaldlega frábært að ég hafi haft kjarkinn til að gera einhvað sem er svona allt öðruvísi og það á eigin spýtur. Og ég var að læra nýtt tungumál.)
Þau spurðu mig svo líka hvað ég yrði hérna lengi. 10 mánuði sagði ég. "Og hvenær ferðu svo heim í Desember/ í vetur?" "Ömmm. Ég fer ekki heim. Ég verð hérna samfellt í 10 mánuði." Þá missa allir andlitið haha :D

Það er svo margt sem mig langar að segja ykkur, en það er ekki alveg nægilega merkilegt til að lengja þetta blogg um of, og hafa það of langt ;)
Ég sakna ykkar allra alveg óendanlega mikið og eins og undan farna daga er ég ekki að fatta þennan tíma sem ég verð frá ykkur.

vous me manques :*

18.9.11

distance is just a test to see how far love can travel


Þá er ég búin að vera hérna í rúmlega 2 vikur, eða 16 daga; sem þýðir að ég kem heim eftir 300 daga ;)
Tíminn er að líða frekar hratt hérna en samt einhvern vegin ekki. Þó svo að skólinn sé alltaf langt fram á dag þá er skólavikan frekar fljót að líða. Ég verð komin heim eftir enga stund.

“Það er virkilega gaman að segja frá því að ég er alveg búin að ná frönskunni og get talað hana núna reiprennandi.” Þetta er setning sem ég vildi að ég gæti sagt án þess að vera að ljúga að ykkur góðu lesendur, en því miður þá er raunveruleikin alls ekki svona góður.

Ég komst loksins á fótboltaæfingu í seinustu viku. Þær eru tvisvar í viku á miðvikudögum og föstudögum frá 19.00-20.30.
Það tekur mig rúmlega klukkutíma að komast á æfingu. (Á föstudögum er þetta svona:) Fæ að fara 20 mín fyrr úr skólanum til að taka strætó ‘1’ klukkan 17:38.  Er komin niðrí bæ 17:53. Þar bíð ég eftir strætó ‘6’ sem kemur 18:08. Ég fer út úr honum 18:33. Þá á ég eftir að labba 7-10 mín að fótboltahúsinu. Á miðvikudögum tekur þetta hinsvegar lengri tíma því ég þarf að koma mér frá Crissey að stoppustöðinni rétt hjá skólanum (25 min að labba þangað). Ég ætla aldrei aftur að kvarta út af vegalengdum þegar ég kem aftur heim. Þetta langa ferðalag er hinsvegar svo þess virði; þessar fótboltaæfingar eru ótrúlega skemmtilegar.

Á fyrstu æfingunni spurði þjálfarinn minn hvað ég héti og ég sagði “Valdis”. Hann skildi mig ekki og reyndi að herma eftir nafninu (öllum hinum frökkunum hefur ekki fundist nafnið mitt erfitt hingað til) en hann náði bara alls ekki að segja Valdis. Það endaði með því að hann spurði mig hvort hann mætti kalla mig Vladis vegna þess að honum fannst hitt svo erfitt. Hann kynnti mig síðan fyrir öllum hópnum með þessu nýja fína nafni: “Vladis”. Á næstu æfingu var hann greinilega búin að æfa sig að segja nafnið mitt því hann leiðrétti það fyrir framan þær allar að ég héti Valdis en ekki Vladis.



Það eina sem er leiðinlegt á þessum æfingum er það að ég get ekki talað á meðan við erum að spila. Ég reyni að segja orð eins og “oui” “hey” til að biðja um boltann. Ég get ekki sagt maður eða þess háttar og það er frekar leiðinlegt.
Miðvikudagarnar eru erfiðar æfingar, en það er rosalega gott því þá hleyp ég af mér allar auka kaloríurnar sem ég er að borða hérna.
Fékk mér t.d. 4 brauðsneiðar um daginn með Nutella. Það voru 320 kaloríur og það var bara Nutellað :$

“Ég  fer í fullt af rússibanaferðum hér tilfinningalega séð, en eins og ég var minnt á þá hef ég svo gaman af stórum rússibönum (sérstaklega þeim sem hringsnúast og fara rosalega hratt).”
Elsku bestu stelpurnar mínar :*

Ýmsir hlutir sem ég hef tekið eftir (ekkert allt voða merkilegt en):
-      Það er ekki stoppað fyrir manni á gangbrautum (ekki einu sinni löggan).
-      Fullt af köngulóm, maurum og moskítóflugum hérna.
-      Fólk að reykja á hverju einasta horni.
-      Stelpunum virðist vera alveg sama um vellíðan á fótum þeirra þar sem þær eru stundum í hælaskóm á 10 tíma skóladegi.
-      Það er brauð með öllum máltíðum.
-      Þegar það er keypt mjólk á heimilið, þá eru keyptar 24 fernur. Þær eru geymdar inn í bílskúr í engum kæli. Þessi mjólk rennur út 2 ½ mánuðum eftir að hún er pökkuð.
-      Það eru engar setur á almenningsklósettum.
-      Kennarnir hleypa aldrei fyrr úr kennslustundum (alltaf beðið eftir bjölluni), en halda manni oft lengur.
-      Í byrjun kennslustundar þarf að standa upp fyrir kennaranum og bíða eftir leyfi til að setjast. Þegar skólastjórinn kemur inn í stofuna þá standa líka allir upp.
-      Kennurunum er skít sama um þá sem skilja ekki frönsku.


Ég sakna ykkar allra sjúklega mikið og get ekki beðið eftir að knúsa ykkur fast að mér eftir 300 daga. En ég ætla að lifa í augnabliknu og reyna að læra þessa blessuðu frönsku.

À bientôt
Bises :*
     

14.9.11

11 dagar í allt öðru landi

Ég ætla að reyna að blogga eins oft og ég get, en núna er daglega rútínan mín að fara að byrja að fullu og því erfitt að finna frí tíma til að blogga.

Skólinn
Líkt og ég sagði í síðasta bloggi þá er skólinn hérna ekkert voðalega skemmtilegur og skóladagarnir eru frekar langir.
Mér fannst kennarnir gefa nemendunum alltof mikið heimanám í síðustu viku.. en það sem þeir eru að gefa þeim núna er meira en alltof mikið. Ég "þarf" samt sem áður ekki að læra heima í neinu (af því að ég bókstaflega get það ekki), nema stærðfræði, þýsku og ensku.
Stærðfræði er frekar erfið á íslensku en þegar hún er á frönsku (leiðbeiningarnar og útskýringarnar) þá má segja að hún sé sjúúklegaa erfið.

Virðingin hérna fyrir kennurunum er mun meiri en á Íslandi. Hér þarf að standa upp fyrir kennaranum (í byrjun tímans) og það má ekki setjast fyrr en hann gefur leyfi til þess. Maður verður alltaf að rétta upp hönd, þéra þá og sé frú eða herra fyrir framan ættarnafn þeirra.
Það má helst ekki tala neitt (nema í samvinnuverkefnum), það má ekki yfirgefa skólastofuna fyrr en bjallan hringur (en kennarinn heldur bekknum samt lengur ef tímaverkefninu er ekki lokið). Það má ekki fara á klósetið í tímum og bannað að fara fram að snýta sér, maður verður bara að láta vaða fyrir framan allann bekkinn (ekki sérlega þægilegt).
Vinnufriðurinn er samt sem áður ótrúlega þægilegur hérna, þegar kennarinn segir bekknum að vinna verkefni upp úr bókinni þá gera það allir (nema ég auðvitað því ég skil ekki neitt).

Frakkar
Mér og fjölskyldunni kemur vel saman; sérstaklega mér og Maroua. Við erum með sama húmorinn og getum því hlegið saman, sem mér finnst mjög fínt. Vinkonur hennar eru núna vinkonur mínar.
Ég er ekki í sama bekk og hún og er ég því líka búin að eignast vini í bekknum mínum. Þau eru líka voðalega fín.
Það er frekar fyndið hvað flestir frakkar tala litla ensku ef ekki enga, miðað við það að þeir eru allanvega í 2-3 tímum á viku í ensku.
Maroua og tvær vinkonur hennar eru nokkuð góðar í ensku og eru því fljótar að grípa til hennar þegar ég skil ekki einhvað. Ég bið þær þá að tala við mig franglais (frönsku blandaða við ensku) og það er að ganga ágætlega. Og ef ég skil ekki þá flýtur þessi setning út úr mér :"Je ne comprends pas désolé."

Trente quatre
Trente quatre eða þrjátíu og fjórir er "leikur" sem Yassine og Maroua taka alltaf þátt í. Hann er þannig að þegar klukkan er ??:34 þá á að standa upp og snúa sér í hring, það er ekki flóknara en það. Þau gera þetta alltaf við matarborðið og Maroua sagði mér að bekkurinn hennar gerir þetta stundum og þá kennarinn skilur ekkert í því. Þetta er víst voða mikið fjör. :)

Umhverfið
Undanfarna daga hefur verið rosalega heitt og mikil sól. Frökkunum finnst þessi hiti samt ekkert voðalega mikill. Ég var að labba heim frá búð sem var í 40 min fjarlægð, frá húsinu "MÍNU", með sólina í bakið og ég sólbrann.
Hér eru fullt af moskítóflugum og það kom ein inn í herbergið mitt og beit um á 4 stöðum. Á lærinu, hendinni, andlitinu og maganum. Þetta eru líka engin smá kýli sem ég fékk.

Ég úðaði skordýraeitri út um allt herbergið mitt að til reyna að drepa hana, en ég sá enga dauða flugu á gólfinu þegar ég kom aftur inn. Ég hélt þá að hún væri farin. um korteri seinna kom hún fljúgandi að mér og ég var snögg að grípa stærðfræðibókina og kramdi hana í klessu. Þetta kennir moskítóflugunum að abbast ekki upp á mig.




Mér líður ágætlega hérna og ég er að venjast þessu öllu saman. Það er mjög skrítið að vera ekki á Íslandi og hitti ykkur öll daglega en "Ég nýt þess að vera hér og nú í augnablikinu" (eins og einhver gullkorn sögðu mér).

7.9.11

Fyrstu dagarnir í France


Ferðalagið
Ferðalagið byrjaði Föstudaginn 2.september þegar ég vaknaði klukkan 4 um nóttina.  Ég kvaddi flest alla vini mína kvöldið áður og var það mjög erfitt, og ég áttaði mig ekki alveg á því hve langur tími þetta væri. Mér fannst líka alveg rosalega erfitt að kveðja fjölskylduna mína, ef ekki erfiðast. Þetta eru rúmlega 10 mánuðir og að sjá þau ekki í allan þennan tíma er alveg óhugsandi. Ég vissi því ekki hvernig ég ætti að haga mér þegar ég kvaddi þau. 

Elsku besta Veró mín <3
Á flugvellinum var erfitt að kveðja mömmu og pabba og ég fékk kökk í hálsinn en vildi ekki gera hlutina verri með því að fara að gráta. 
Fluginu seinkaði um 2 tíma og sátum við skiptinemarnir því salla róleg og vorum að spjalla.
Á flugvellinum tók kona á móti okkur og við biðum í rúmlega 1 tíma á flugvellinum eftir öðrum skiptinemum sem voru týndir. Það voru 33°C úti og við því öll að svitna eins og svín í rútinni á leiðinni á gistiheimilið (mér fannst skrítið að rútan var ekki með öryggisbelti því að hún keyrði á hraðbrautinni og AFS er alltaf að passa upp á að það komi ekkert fyrir okkur). Á gistiheimilinu fengum kex og epli en vatnið var búið; og við öll að deyja úr þorsta. Þegar við fengum loksins vatn, þá sá ég strax eftir því að hafa ekki þambað trilljón glös af íslensku vatni vikuna áður en ég kom, vegna þess að vatnið hérna er ekki verulega gott (er samt búin að venjast því núna).
Okkur var skipað í herbergi og ég var ég í herbergi með stelpu frá Belgíu og annari frá USA. Ég fékk þá að fara í sturtu sem var ólýsanlega þægilegt.

París
Þann 3.september fórum við í skoðunarferð um París. Við vorum í rútunni allantímann en fengum að fara út fyrir utan Effelturninn :) Aftur var rosalega heitt úti.
Effel turninn

Á gistiheimilinu fórum við síðan í umræðuhópa, en þeir voru ekkert merkilegir. Um kvöldið var samkoma í salnum og þar var verið að segja okkur hvernig morgundagurinn yrði. Einnig áttum við að æfa okkur að heilsast að frönskumsið = kyssast með kinnunum 2 sinnum.
Spenningurinn á þessu stigi var gífurlegur en það sama átti við um stressið.

4.september
Vöknuðum 6.45 og fórum í rútu á lestarstöðina klukkan 8. Lestin mín lagði síðan afstað klukkan 10.29. Tilfinningar mínar voru í skemmtilegri rússibanaferð allan daginn. Þegar við stigum út úr lestinni kom hópur hlaupandi á móti okkur og voru það AFS-sjálfboðaliðarnir. Löbbuðum um 100 metra og þá sáum við fósturfjölskyldurnar okkar. Það var verulega skrítið því ég hafði einungis séð þau í gegnum tölvu og haft þannig samband við þau. Ég vissi ekkert hvernig þau væru en samt var ég að fara að búa hjá þeim í rúmlega 10 mánuði.
Við fórum á fund um leið og við komum en hann var lengstan tímann á frönsku :/

Ég var búin að sjá myndir af húsinu "okkar" en aldrei af herberginu "mínu", það var því mjög skrítið að labba inn í það og hugsa sér að ég myndi sofa í því í allan þennan tíma. Það var ennþá skrítnara að pakka upp úr töskunni inn í skápinn. Ég reyndi að koma því inn í hausinn á mér að ég myndi ekki pakka ofan í töskuna aftur. Þetta var MITT rúm, MINN fataskápur, MITT herbergi, MITT heimili.

Maroua kynnti mér fyrir vinkonu sinni Céliu. Hún er mjög fín.
Ég hélt ég myndi ekki getað sofnað um kvöldið, en sofnaði um leið og ég slökkti ljósið.

Skólinn
Í stuttu máli = dreeeep leiðinlegur !
Ég vil ekki vera neikvæð, en þetta eru einfaldlega (sannar) staðreyndir: Ég skil ekki neitt. Ég skil ekki neitt. Skólinn er rosalega langur (7.55-17.45 (næstum 10 tímar)) og aðeins og langur eyður (5 tímar mest). oog já ég skil ekki neitt , var ég kannski búin að segja það?
"skemmtilega" stundataflan

2 jákvæðar staðreyndir eru þær að hádeigismaturinn er í 1 tíma og ég er í skólanum í 2 tíma á miðvikudögum.
60-70% skólanns reykir, ef ekki meira. Veit ekki hvort þið vissuð það en ég hata reykingar!
Það er erftitt að eignast vini hérna án þess að þau reyki, það eru þó alltaf undantekningar.

Maturinn
Maturinn á gistiheimilinu var ekki sérlega góður og vorum við öll hrædd að maturinn hjá fjölskyldunum okkar yrðu einnig svona (en sem betur fer er það ekki). 
Maturinn í skólanum er ekki heldur sá besti, en hann er ætilegur.
Maturinn hérna heima er mjög góður og aldrei svínakjöt (lýst mjög vel á það) :D Latifa (mamman) er búin að elda sér rétti fyrir mig því að þau eru svo vön að borða sterkt og hún vill venja mig á það með því að hafa þá ekki svo sterka hjá mér.
Hér er líka brauð með öllu. Allann daginn.

Almennt
Maroua er búin að hjálpa mér alveg helling og kennir mér ýmsa hluti á frönsku daglega, ég reyni að muna þetta, en þetta er svo mikið menningarsjokk.
Þegar fólk er að tala saman á frönsku þá stend ég (eða sit) hjá þeim og stari á þau. Ég veit ekki afhverju ég horfi bara, ætli ég haldi ekki bara að ef ég stari þá koma franskan einfaldlega til mín. Mjög líklega gerir hún það ekki, en ég er orðin frekar óþolinmóð að ég skilji ekkert.
Krakkarnir hér eru reyndar mjög almennilegir og reyna að hjálpa mér eins og þeir geta. Þau eru búin að segja að þau séu til staðar fyrir mig ef mig vanti einhvað og það er alveg æðislegt :) Ég er því búin að eignast nokkra vini. En vinkona mín sem er mest hjá mér þessa dagana er heimþráin. Hún eltir mig út um allt eins og skugginn. Ég hef reyndar komist að því að hún sprettir í burtu um leið og ég umgengst annað fólk og hlæ. En hún sprettir jafn hratt til baka þegar ég er ein.



Ég sakna ykkar á Íslandi mjög mikið en það eina sem er að stoppa mig frá því að koma aftur heim er þrjóskan. Við sjáum til hvað hún er sterk og ég vona að ég nái geti tekið þátt í umræðum fyrir jól.
Elska ykkur öll <3

26.8.11

10 mánuðir í einni ferðatösku

Jæja þá er allt tilbúið til brottfarar.. er setning sem ég vildi að ég gæti sagt.

Ég ákvað að byrja að pakka seinasta mánudag. Ég hélt að ég gæti hreinlega hent fötunum ofan í tösku og þá væri allt tilbúið. En nei, málið er bara ekki svo einfalt. Þegar að ég tók flík út úr skápnum þá skoðaði ég hana vel og hugsaði mig um hversu oft ég væri búin að nota hana hérna á Íslandi, og hvort ég myndi einhverntímann nota hana úti í Frakklandi. Síðan fattaði ég að ég vissi ekkert hvernig týskan væri í bænum mínum þarna úti og þá byrjaði ég að vera stressuð, eða á ég að segja stressaðari.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að getað komið 10 mánaða byrgðum af nauðsynlegum fötum í eina tösku sem má ekki vera þyngri en 20 kg.
Ég er búin að vera að þrífa föt (eða reyndara sagt er mamma búin að því) sem mig langar hugsanlega að taka með út. Þessi föt liggja nú öll á sófanum mínum og bíða þess að ég setji þau ofan í töskuna mína. Ég þori því hinsvegar ekki þar sem ég er svo hrædd að þau sé þyngri en leyfileg þyngd og ég vil ekki þurfa að skilja einhvað mikilvægt eftir hérna heima.

Fólk er að spyrja mig út í bæ hvenær ég fari og hvort mig hlakki ekki til. Jú auðvitað hlakkar mig til en ég er um leið: kvíðin, spennt, leið og glöð. En ég veit ekki hvaða tilfinningar ég á að sýna umheiminum.
Ég reyni auðvitað að fela það þegar ég er leið og efins, en þegar fólk er farið að segja við mig að það eigi eftir að sakna mín og vilji ekki að ég fari þá er virkilega erfitt að fara ekki að hágráta; en hingað til hefur mér tekist það bara nokkuð vel :)

Það er nú tæplega vika í að ég verði komin út. Flugið mitt er næsta föstudag (2.september) klukkan 07.40. Áætlaður lendingartími í París er 13.05. Þar verða AFS-sjálfboðaliðar sem taka á móti okkur og farið verður með okkur til allra hinna skiptinemana sem komnir eru til Frakklands víðs vegar úr heiminum. Við skiptinemarnir verðum síðan saman fram á sunnudagsmorgun en þá höldum við öll til fjölskyldna okkar. Áætlað er að ég verði komin til Dijon klukkan 12.05 á sunnudeginum og ætla "foreldrar" mínir og tvær "systur" mínar að koma að sækja mig þangað :D

Það verður í fyrsta skiptið sem ég sé þau. Sem er frekar fyndið þar sem ég á svo að búa hjá þeim í rúmlega 10 mánuði.

Á mánudeginum eftir að ég kem til þeirra (5.september) er skólasetningin. Skólinn byrjar síðan á fullu á þriðjudeginum. Ég hlæ við tilhugsunina að ég sé að fara að vera í frönskumælandi umhverfi eftir einungis 9 daga (skiptinema"búðirnar" teljast ekki með þar sem við tölum ensku saman þar).

Þetta er allt að verða svo raunverulegt. Ég tala við yngstu systurina Maroua næstum því á hverjum einasta degi núna. Hún sagði mér til dæmis frá útvarpsstöð sem hún hlustar á og hlusta ég núna á hana daglega. Ég komst einnig að því að nærsta H&M er í 40 mínútna fjarlægð frá bænum okkar og ætlum við "systurnar" að fara og versla þar bráðlega. Í borginni er einnig verslunargata, svo ég þarf eftir allt saman ekkert að hafa svo miklar áhyggjur af þessum 20 kg.

Þessa seinustu daga ætla ég að njóta til hins ytrasta. Það er lygilegt hvað það er stutt í brottför.

Elsku besta fjölskyldan mín :*